• Jón Steinar Gunnlaugsson

Hvernig á dómari við Hæstarétt að starfa?


Hann má aldrei láta huglægt mat sitt á kringumstæðum ráða dómum sínum. Hann má aldrei beita öðru en réttarheimildum til að komast að niðurstöðu.


Hann má aldrei ganga erinda vina sinna og kunningja í bága við heimildir réttarins. Hann þarf að láta aðila máls vita fyrirfram ef hann tengist málsaðilum þannig að til vanhæfis geti leitt.

Ef persónulegur vinur hans á hagsmuni undir dómi, þar sem til dæmis reynir á, hvort sá hinn sami fái greidda svimandi háa þóknun fyrir skiptastjórn í þrotabúi, á dómarinn ekki að hafa nein afskipti af málinu.

Hafi persónulegir vinir hans gerst sekir um alvarleg siðferðisbrot ætti hann að forðast samskipti við þá.

Ef samkennari hans í háskólanum rekur mál fyrir dómi til að ná fram uppgjöri við banka sem er bersýnilega utan laga og réttar, ætti hann ekki að sitja í dómi sem dæmir í málinu.

Ef bankar hrynja og saksóknari vill fá heimild til símhlerunar hjá sökuðum manni, sem verið er að sleppa úr gæsluvarðhaldi, ætti hann að skilja að ekki eru lagaskilyrði til að verða við beiðni saksóknarans.

Ef þekktur ríkisstarfsmaður er sakaður um innherjasvik í tengslum við bankahrun ætti hann að gæta sín á að falla ekki í þá gryfju að dæma manninn sekan einungis til að geðjast almenningi.

Þó að dómaranum sé ekki vel við gagnrýni á starfshætti sína ætti hann að gæta sín á að hlaupa ekki af stað með meiðyrðamál gegn gagnrýnandanum sem fyrirsjáanlega mun tapast á öllum dómsstigum.

Þeir sem þurfa að bera mál sín undir réttinn ættu ekki að verða betur settir fyrir þá sök að vera persónulegir vinir dómarans.

Það væri óskandi að ekkert tilefni væri til þessara ábendinga. En ætli það sé raunin?


Jón Steinar Gunnlaugsson er áhugamaður um starfsemi Hæstaréttar