top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Hverjir eru hagsmunir þeirra?


Þegar mönnum er gert að taka ákvarðanir, sem geta varðað öryggi annarra manna, jafnvel alls almennings, hafa þeir ríka tilhneigingu til að ganga lengra en skynsamleg rök mæla fyrir um að sé nauðsynlegt. Á ensku máli er spurt: „What´s in it for them?“ sem á íslensku getur útlagst „hverjir eru hagsmunir þeirra sjálfra?“.


Stjórnvöld sem taka ákvarðanir um frelsisskerðingar almennings vegna ótta við veiruna hafa þannig tilhneigingu til að ganga alls ekki skemur en sérfræðingarnir ráðleggja. Gangi þeir skemur finnst þeim þeir taka áhættu á að fá á sig gagnrýni, jafnvel embættismissi fyrir að hafa ekki farið eftir ráðum sérfræðinganna, sérstaklega ef framvindan verður verri en útlit var fyrir.


Sama er að segja um sérfræðingana. Þeir vilja ekki láta gagnrýna sig eftirá fyrir að hafa ekki gengið nógu langt í ráðgjöf sinni um aðgerðir.


Þessar aðstæður fela það þess vegna í sér, að til staðar er eins konar sjálfvirkni sem veldur því að jafnan er gengið lengra í ráðstöfunum, þ.m.t. skerðingum frelsis manna, en þörf er á.

Stjórnvöld þurfa að átta sig vel á þessu og reyna svo að axla þá ábyrgð sem felst í því að taka ákvarðanir sem ganga ekki lengra gegn frelsi og daglegu lífi borgaranna en brýna nauðsyn ber til. Embættisskyldur þeirra gera kröfu til þess að svona sé farið að við þessar ákvarðanir. Hugsanleg hætta á gagnrýni eftirá og jafnvel embættismissi er hégómi við hliðina á þessari skyldu.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

bottom of page