• Jón Steinar Gunnlaugsson

Hvílík viðbrögð!


mbl.is / Eggert Jóhannesson

Það er næsta furðulegt að fylgjast með viðbrögðum fréttastofu RÚV við upplýsingum Samherja um atvik að fréttaflutningi stofunnar á árinu 2012 um meint gjaldeyrissvik fyrirtækisins.

1. Samherji segir að fréttamaðurinn Helgi Seljan hafi ekki verið með í höndum skýrslu frá svonefndri Verðlagsstofu skiptaverðs þegar fréttin var flutt, þó að hann hafi sagst vera það. Fyrirsvarsmenn verðlagsstofunnar kannast ekki við að hafa samið svona skýrslu. Helgi og Ríkisútvarpið svara og segjast víst hafa verið með skýrsluna. Og þá skal spurt: Af hverju framvísa þeir henni ekki nú til sönnunar á réttmæti staðhæfinganna?

2. Fyrirsvarsmenn RÚV fara mikinn í ásökunum á hendur Samherja fyrir að hafa veist að fréttamanni RÚV. Engin dæmi séu um að fréttamenn hafi þurft að sæta slíkum árásum. Og þá skal spurt: Verður ekki fréttamaður sem sakar borgara í fréttum um refsiverða háttsemi að sæta því að þeir svari fyrir sig? Er hann friðhelgur fyrir því? Ef þeir telja sig hafa stoð fyrir þeirri skoðun að fréttamaðurinn hafi farið með rangt mál, jafnvel vísvitandi, mega þeir þá ekki segja frá því? Hverslags vitleysa er þetta hjá ríkisstofnuninni sem í hlut á og ber skyldur um hlutlægni og málefnaleg vinnubrögð?

3. RÚV finnur að því að lögreglumaður hafi fengið fréttamanninn á fölskum forsendum til að tala við sig. Hafa fréttamenn RÚV ekki oftar en einu sinni orðið uppvísir að því að beita slíkum bellibrögðum? Frægasta dæmið er líklega viðtalið við Sigmund Davíð Gunnlaugsson sem olli því að hann hraktist úr ráðherraembætti. Í þessu gildir sýnilega tvöfalt siðferði hjá ríkisstofnuninni.

Svo ættu þeir sem tjá sig um málið í neðanmálsgreinum að skilja að þetta er ekki fótboltaleikur þar sem menn halda með öðrum gegn hinum. Hið sama gildir um fréttamenn á öðrum miðlum, sem núna sýna RÚV mönnum stéttvísi sína. Eins og endranær eiga menn að taka afstöðu eftir málefninu. Í augnablikinu standa mál þannig að fréttamenn RÚV hafa sýnt af sér háttsemi sem ekki er frambærileg. Við eigum öll að fordæma það.

© 2018 JSG lögmenn, Skólavörðustíg 12, 101 Reykjavík og Kaupvangi 6, 700 Egilsstöðum. Netfang: upplysingar@jsg.is. Sími: 5301230.

  • s-facebook
  • s-linkedin