top of page

Hugsjónir

Writer: Jón Steinar GunnlaugssonJón Steinar Gunnlaugsson

Hvað er hugsjón? Við tölum um að sá maður hafi hugsjón sem telur að skylt sé að haga lífi sínu í samræmi við ákveðnar grunnhugmyndir um lífið og tilveruna. Þegar ég tala hér um hugsjónir undanskil ég hugmyndir sem ganga út á að gera öðrum miska eða stjórna þeim með fyrirmælum og boðvaldi, eins og sumir kunna að vilja gera. Með hugtakinu á ég við hugmyndir sem viðkomandi maður hefur leitað að, drifinn áfram af eldmóði sannleikans og án þess að setja sig yfir hlut annarra.


Flest höfum við hugsjónir. Það er hins vegar undir hælinn lagt hvort við leggjum okkur fram um að lifa eftir þeim. Þrátt fyrir það er okkur sjálfsagt öllum hollt að móta með okkur meginhugmyndir sem verða til við hugsanir okkar sjálfra um það réttlæti sem við viljum virða. Þær byggjast sjálfsagt aðallega á lífsreynslu okkar en stundum enn fremur á hugmyndum sem við leggjum sjálf niður fyrir okkur og teljum eftirsóknarvert að lifa eftir af fremsta megni.


Ég held að öllum sé hollt að reyna að haga lífi sínu eftir hugmyndum sem þeim þykja eftirtektarverðar og jafnframt rökréttar og fagrar. Að mínum dómi gera slíkar hugsjónir líf okkar verðmeira en ella, jafnvel svo að við teljum okkur hafa höndlað sjálfa lífshamingjuna ef okkur tekst að lifa eftir þeim. Slíkar hugsjónir eiga erindi til okkar allra.


En svo eru til hugsjónir sem eru miklu stórfelldari heldur en þetta. Þær geta lotið að meginhugmyndum, sem varða ekki bara okkur sjálf, heldur líka annað fólk. Við virðum til dæmis flest lýðræðislegt stjórnskipulag og mannréttindi sem við teljum að ekki bara að við sjálf, heldur allir aðrir menn eigi að njóta.


Stundum geta menn jafnvel verið tilbúnir til að láta líf sitt í baráttu fyrir slíkum hugsjónum sínum. Þá binda menn hugsjónir sínar ekki við eigin hagsmuni heldur einnig við hagsmuni annarra.


Í lýðræðislegu stjórnkerfi nútímans reynir sjaldan eða jafnvel alls ekki á slíkar fórnir í þágu hugsjónanna. Það kemur miklu fremur fyrir að menn verði að taka á sig alls kyns óþægindi fyrir að vilja ekki brjóta gegn hugsjónum sem þeir virða og vilja hafa að meginstefi í lífi sinu. Þeir sem misvirða slíka afstöðu skilja þá oft ekki samhengi þeirra hugmynda sem viðkomandi maður vill virða. Kannski getur það stafað af því að þeir virði þær ekki sjálfir eða jafnvel kjósi frekar að sækjast eftir innihaldslitlum stundarhagsmunum í eigin þágu. Ætli við könnumst ekki mörg við slíka afstöðu? Stundum getur líka staðið svo á að sá, sem ekki skilur eða fellst á hugsjónina, einfaldlega hætti að vilja hafa samskipti við hugsjónamanninn. Slíka afstöðu þekkjum við líka þó að okkur finnist hún oftast frekar aumkunarverð.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

© 2018 JSG lögmenn, Skólavörðustíg 12, 101 Reykjavík og Kaupvangi 6, 700 Egilsstöðum. Netfang: upplysingar@jsg.is. Sími: 5301230.

  • s-facebook
  • s-linkedin
bottom of page