• Jón Steinar Gunnlaugsson

Honum ber að biðjast lausnar


Í fyrra stóð Róbert Spanó íslenski dómarinn við Mannréttindadómstól Evrópu að furðulegum dómi í máli gegn Íslandi. Það mál varðaði skipun dómara í Landsrétt. Þar átti íslenski dómarinn hlut að dómi MDE á hendur heimalandi sínu með þeirri niðurstöðu að Landsréttur hefði ekki verið skipaður samkvæmt lögum. Þetta sáu allir lögfróðir menn að var staðleysa. Skipan dómsins fór að öllu leyti fram samkvæmt lögum og hafa allar valdastofnanir á Íslandi staðfest að svo sé, Alþingi, ráðherra, Hæstiréttur (mál nr. 10/2018) og meira að segja forseti Íslands. Enginn réttur var brotinn á kæranda sem hafði játað ölvunarakstur og var ákveðin refsing fyrir það.

Á sama tíma hefur Róbert Spanó staðið að því að vísa frá MDE fjölda kærumála frá Tyrklandi, þar sem m.a. dómurum var vikið úr starfi í stórum stíl fyrir þær sakir að vilja ekki þýðast harðstjórann Erdógan. Svo bítur Róbert Spanó höfuðið af skömminni með því að þiggja boð til Tyrklands til að hitta Erdógan og láta þar sæma sig heiðursnafnbót, allt undir forsjá harðstjórans. Þetta er ótrúleg atburðarás, ekki síst þegar málið gegn Íslandi er skoðað til samanburðar.

Ekki er auðvelt að ráða í ástæðurnar fyrir framferði þessa dómara. Hann virðist helst vera í einhverjum pólitískum og persónulegum leik, þar sem lög og réttur skipta hann ekki miklu máli.

Það er orðið ljóst að Róbert Spanó er með Tyrklandshneykslinu búinn að skaða Mannréttindadómstól Evrópu með þeim hætti að honum ber siðferðileg skylda til að biðjast lausnar; a.m.k. ef hann metur hag dómstólsins meira en eigin hégómagirnd.

Ég spái því að hann muni samt ekki gera þetta. Hann mun bregðast við eins og svo margir gera við hliðstæðar aðstæður. Forherðast og sitja sem fastast.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður