top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Hjarðhegðun dómara


Hvers vegna ætli kveðið sé svo á í lögum að áfrýjunardómstólar skuli skipaðir fleiri en einum dómara, sem dæma skuli mál saman, ýmist þrír, fimm eða sjö? Þetta gildir ekki bara á Íslandi heldur einnig í öðrum löndum sem og við alþjóðlega dómstóla, eins og Mannréttindadómstól Evrópu svo dæmi sé tekið. Ástæðan er augljós. Það er talið til þess fallið að tryggja rétta niðurstöðu í málinu að kveðja til nokkra vel hæfa lögfræðinga til að leggja dóm á sakarefni þess. Forsendan fyrir þessu er auðvitað sú að hver og einn þeirra leggi sitt álit til grundvallar niðurstöðu sinni. Þetta beri þeim þá að gera eftir að hafa borið saman bækur sínar og verið tilbúnir til að skipta um skoðun ef einhver hinna kemur með úrlausn sem telur þeim hughvarf. Þessi skipan myndi óhjákvæmilega valda því að dómarar skrifuðu sératkvæði þegar úrlausnin, sem þeir telja rétta, er ekki hin sama og úrlausn hinna. Þetta hlyti að gerast reglulega, því úrlausnarefnin eru oft flókin og veruleg áhöld um aðferðafræðina við að dæma um þau og þar með um niðurstöðuna.


Víða erlendis er gert ráð fyrir að einstakir dómarar skuli greiða skriflega atkvæði í máli sem til meðferðar er hverju sinni. Sé dómari sammála öðrum að öllu leyti getur hann einfaldlega vísað til röksemda annars dómara í hópnum eftir að þeir hafa komið sér saman um hvor eða hver þeirra skuli skrifa hinn efnislega rökstuðning. Þessi aðferð við samningu dóma er til þess fallin að stuðla að persónulegri ábyrgð einstakra dómara í hópnum á niðurstöðu sinni.


Allir ættu að vita að í nokkurra manna hópi lögfræðinga hlýtur að verða alltítt að upp komi ágreiningur um þau lögfræðilegu úrlausnarefni sem fengist er við. Þetta verður augljóst þegar athugaðar eru upplýsingar um slíkt við fjölskipaða erlenda dómstóla. Þar er víða regla fremur en undantekning að sjónarmið séu að einhverju leyti mismunandi. Slíkur ágreiningur er eðlilegur og telst raunar óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að skipa marga jafnsetta dómara í dóm.


Ætli þetta sé sá háttur sem við er hafður hér á landi? Nei, ekki aldeilis. Elíta dómaranna liggur meira segja ekkert á þeirri skoðun sinni að æskilegt sé að bræða saman sjónarmiðin og forðast sératkvæði. Nú er orðið afar fátítt að sératkvæðum sé skilað og þarf ekki að fara nema nokkur ár aftur í tímann til að sjá mun skárra ástand að þessu leyti í Hæstarétti. Þegar ég átti sæti í réttinum taldi ég það skyldu mína að standa með sjálfum mér við úrlausn málanna og byggði þá á þeirri augljósu forsendu að rétt niðurstaða í lögfræðilegum ágreiningi væri aðeins ein en ekki margar sem dómari gæti valið úr. Þetta gerðu líka einstakir aðrir dómarar og nefni ég þá til sögunnar Hjördísi Hákonardóttur, Ólaf Börk þorvaldsson og Viðar Má Matthíasson.


En bæði þá og nú hefur meginreglan verið sú að bræða saman sjónarmiðin, eða þá einfaldlega að fylgja í blindni einhverjum hinna sem skrifar atkvæði. Hátturinn sem þarna er ríkjandi felur í sér eina tegund þeirrar hjárðhegðunar sem nú tröllríður þjóðfélagi okkar og setur mark sitt á ákvarðanir og afstöðu manna. Virðist viðhorf margra dómara felast í því að þeir telji sig hafa verið skipaða í dóm til að semja við aðra lögfræðinga um hina réttu niðurstöðu í stað þess að finna hina réttu lögfræðilegu niðurstöðu. Úr þessu hefur oft orðið hrein afbökun, þar sem eitt rekur sig í annars horn og engin leið verður að skilja um hvað viðkomandi dómur er fordæmi. Nefndi ég sláandi dæmi um þetta í bók minni „Veikburða Hæstiréttur“, sem kom út á árinu 2013, sjá bls. 54-78. Dæmin sýna vel fáránleikann í þessari aðferðafræði samninganna.


Ekki deili ég við nokkurn mann um að nauðsynlegt sé að ágreiningur, sem upp kemur við samningu dóma, sé krufinn til mergjar og reynt sé að nálgast sameiginlega hina réttu lögfræðilegu niðurstöðu, þannig að allir dómararnir geti sameinast um forsendur og niðurstöðu máls. Standi hins vegar eftir ágreiningur um röksemdir eða niðurstöðu að slíkri krufningu lokinni er það að mínum dómi skylda dómara að fylgja sinni bestu samvisku og greiða sératkvæði en ekki að víkja skoðun sinni til hliðar í þágu einingarinnar. Ein af meginforsendum þess að skipa marga dómara í æðsta dómstól þjóðar hlýtur að vera að tryggja að mismunandi lagaleg sjónarmið hinna hæfustu lögfræðinga séu þar til staðar. Dómarar eru ekki skipaðir til embætta í slíkum dómstól til að taka samstöðuna sín í milli fram yfir bestu einstaklingsbundna vitund um lögfræðileg úrlausnarefni. Breyting á reglum um samningu dóma í þá átt sem ég hef rakið ætti að vera til þess fallin að bæta mjög starfsemi æðri dómstólanna, hvort sem um Landsrétt eða Hæstarétt ræðir.


Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt

bottom of page