• Jón Steinar Gunnlaugsson

Hjarðhegðun


Eitt stærsta meinið í samfélagi okkar er það sem kalla má hjarðhegðun flestra þegar tekin er afstaða til mála, þ.m.t. þýðingarmikilla þjóðfélagsmála. Í stað þess að leggja sjálfstæða hugsun í málefnið, sem til meðferðar er, virðast flestir móta afstöðu sína af því sem þeir telja að komi sér best fyrir þá sjálfa og persónulega hagi þeirra. Þá verður fljótlega til það sem kalla má rétttrúnað, sem er þá oftast hugsunarlaust lagður til grundvallar við umræður og ákvarðanir í okkar fámenna þjóðfélagi.


Um þetta eru mýmörg dæmi. Ég hef oftsinnis fjallað um klíkuákvarðanir þeirra sem ráða ríkjum í dómskerfinu. Þeir sem eiga hagsmuni undir þeim ákvörðunum velja flestir þann kostinn að makka með. Ástæðan er þá gjarnan sú að viðkomandi veit að andóf af hans hálfu muni skaða hann sjálfan og persónulega hagi hans. Lögmenn eru til dæmis hræddir um að valda skaða á hagsmunum skjólstæðinga sinni í dómsmálunum og dómarar á lægri dómsstigum eru hræddir um að fá ekki þann framgang í störfum sem þeir vonast eftir.


Í stjórnsýslunni er sömu sögu að segja. Þeir sem eiga samskipti við valdsmenn á þeim vettvangi vita um fjölmörg dæmi þess að valdi sé misbeitt. Valdið á þeim vettvangi er oftast í höndum embættismanna sem stundum hafa öll ráð yfirmanna sinna (ráðherranna) í hendi sér. Þegar ranglát ákvörðun hefur verið tekin er oft miklu „skynsamlegra“ að una henni möglunarlaust fremur en að gagnrýna hana þó að rökin fyrir gagnrýni séu augljós.


Það er ekki á því nokkur vafi að þessi hjarðhegðun veldur miklum skaða í samfélaginu. Ákvarðanir eru teknar á ómálefnalegum grundvelli og enginn þorir að segja neitt. Það er því fyllsta ástæða til þess að hvetja alla hugsandi menn til að láta miklu meira í sér heyra og þá í því augnamiði að veita valdhöfum aðhaldið sem þeir svo sannarlega þarfnast.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður