top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Hentaði illa

Svo furðulegt sem það er hafa ofsatrúarmenn á Íslandi tekið upp baráttu til stuðnings hryðjuverkasamtakanna Hamas í stríðinu gegn Ísrael. Þetta baráttufólk hefur þá helst ekkert viljað vita að upphaf átakanna nú var árás Hamas á saklausa borgara í Ísrael 7. október s.l. Hinir íslensku baráttumenn virðast hafa gripið hvert tækifæri til að styðja hinar palestinsku vígasveitir í þessu stríði án þess þá að nefna upphafið 7. október.


Það hljóp því á snærið hjá ofsatrúarmönnum, þegar fram kom að palestínskur maður óskaði eftir að fá að taka þátt fyrir Íslands hönd í söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva þetta árið. Stóð ekki lengi á háværum stuðningi þessara Íslendinga við manninn og lag hans án þess þó að vita neitt um lagið sem hann hugðist flytja. Þeir höfðu þá ekki einu sinni hlustað á það áður en baráttan hófst. Virtust margir þeirra telja þá strax að þetta væri lagið sem senda skyldi til keppninnar enda væri það sýnishorn um stuðning Íslendinga við Hamas-liða í þessu stríði.

Þá kom í ljós að þessi söngfugl hugðist flytja kúrekalag í bandarískum stíl „Wild West/Villta vestrið“ í keppninni. Þetta hentaði illa fyrir íslensku baráttumennina. Og viti menn. Barátta þeirra til stuðnings laginu þagnaði samstundis.


Það er ekki hægt að harma það að að ofsatrúarmenn, sem taka einhliða afstöðu með öðrum aðilanum í þessu dapurlega stríði, skuli fá svona kyrfilega á baukinn.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

Commentaires


bottom of page