top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Heimildarlaus valdbeiting


Leiðari Morgunblaðsins s.l. föstudag 14. júní ber fyrirsögnina „Loftslag, lýðræði og óvinir þess“. Þar er fjallað um dóm Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) fyrir skömmu þar sem tekin var til greina krafa um að lýðræðislegur meirihluti svissneskra borgara hefði brotið mannréttindi á borgurum landsins með því að gera ekki nóg í loftslagsmálum. Í Sviss væri beint lýðræði í hávegum haft, en þjóðaratkvæðagreiðsla hafði farið þar fram um loftslagsaðgerðir árið 2021. Nú hefðu báðar deildir svissneska þingsins hafnað þessum dómi, m.a. á þeirri forsendu að MDE hefði farið út fyrir valdsvið sitt og viðhaft óþolandi afskipti af svissnesku lýðræði.

 

Sá sem hér skrifar tekur kröftuglega undir þessa afstöðu Morgunblaðsins. Þessi dómstóll hefur ekki, frekar en aðrir dómstólar yfirleitt, vald til að hnekkja ákvörðunum löggjafans í aðildarríkjum MDE.

 

Lítum aðeins á skiptingu valds milli æðstu stofnana ríkisvalds á Íslandi sem telja má sambærilega því sem gildir í öðrum lýðræðisríkjum í Evrópu. Ríkisvaldinu er skipt í þrjá þætti: löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Hver þessara þátta byggir valdheimildir sínar á ákvæðum í stjórnarskrám ríkjanna, sem í grunninn kveða á um lýðræði, þ.e. að handhafar ríkisvaldsins sæki vald sitt til almennings (kjósenda). Hér á landi fer löggjafinn þannig með lýðræðislegt vald sem almennir kjósendur veita honum í Alþingiskosningum til afmarkaðs tíma í senn.

 

Handhafar framkvæmdarvalds njóta afleidds lýðræðislegs umboðs til valdheimilda sinna, þar sem þeir verða að styðjast við meiri hluta þingsins . Þeir þurfa síðan að byggja valdskotnar ákvarðanir sínar á ákvæðum í stjórnarskrá sem veitir þeim slíkar heimildir í einstökum málum með settum lögum.

 

Samkvæmt íslensku stjórnarskránni fara dómstólar ekki með neitt sambærilegt vald. Upphafsákvæði 61. gr. hennar segir svo um valdheimildir þeirra: „Dómendur skulu í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögunum.“ Þetta er að sínu leyti sama staða og gildir um valdheimildir alþjóðlegra dómstóla til að dæma um réttarstöðu borgara í einstökum aðildarríkjum. Til þess þurfa þeir heimildir sem þurfa að byggja á stjórnskipulegum innanlandsreglum aðildarríkjanna. Slíkar reglur veita þessum alþjóðlegu dómstólum ekki heimildir til að setja nýjar lagareglur um réttarstöðu borgara aðildarríkjanna. Og þá ekki til að túlka reglur út fyrir efni lagareglna sem réttlega hafa verið lögleiddar með lýðræðislegum hætti. Sjálftaka þessara dómstóla brýtur svo einnig gegn fullveldi þjóðanna sem byggist á stjórnarskrám þeirra semg fæstar hafa gefið frá sér.

 

Gagnrýni Morgunblaðsins á fyrrgreindan dóm MDE byggist á þessum gildu sjónarmiðum. En hvað þá um íslenska dómstóla? Mega þeir byggja dóma sína á öðru en íslenskum lögum, sem Alþingi hefur sett? Ég hef í mörg ár mælt fyrir þeim málstað að dómstólar hafi ekki heimild til slíks. Þeim beri bara að dæma eftir lögum, en Alþingi setur þau samkvæmt stjórnarskránni á grundvelli þess lýðræðislega umboðs sem þingið hefur og getið var um að framan. Samt er málinu svo háttað að íslenskir dómstólar hafa um langan aldur tekið sér vald til lagasetningar á hliðstæðan hátt on MDE gerði í fyrrgreindum dómi. Dæmi eru um að íslenskir fræðimenn hafi haldið því berum orðum fram að dómstólar fari með heimildir af þessu tagi. Einn skrifaði t.d.: „Viðurkennt er að dómsvaldið eigi að vera sjálfstætt og því mega dómstólar aldrei verða ambátt löggjafans. En þetta hefur enga merkingu nema dómsvaldið hafi sjálfstæðar valdheimildir nokkurn veginn til jafns við löggjafann til að móta reglur sjálfstætt eða að minnsta kosti til aðhalds og mótvægis.“

 

Þessi „fræðikenning“ stenst auðvitað enga skoðun. Dómstólar sem „móta reglur sjálfstætt“ eru með öllu ábyrgðarlausir af lagasetningu sinni. Hún er andlýðræðisleg alveg eins og dómur MDE á dögunum.

 

Þó að ég hafi í bókum mínum á undanförnum áratugum nefnt mörg dæmi um svona misnotkun á dómsvaldinu hefur mér fundist að almenningur í landinu hafi látið sér fátt um finnast. Ég hef ekki fylgst nákvæmlega með dómsýslunni síðan en hef sterka tilfinningu fyrir því að þetta hafi ekkert lagast. Beini ég því til starfandi hæstaréttarlögmanna að nefna til sögunnar dóma frá síðustu árum sem sýna þetta. Ég þekki dæmi um að ákvæði um refsiverða háttsemi verið „snyrt til“, svo refsa megi mönnum fyrir lögbrot til að þóknast þannig almenningi í landinu. Ég hef sterka tilfinningu fyrir því að svo sé. Ástæða er til að hvetja dómara til að láta ekki freistast af slíku hátterni. Fjölmiðlar hafa því miður ekki, svo mér sé kunnugt, fjallað um þetta þegar það gerist hjá dómstólum hér innanlands. Heldur ekki Morgunblaðið, þó að á vettvangi þess sé nú réttilega fjallað um valdbeitingu erlendra dómstóla eins og nefnt var fyrst í þessum pistli.

 

Guð blessi Ísland!

 

 Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

Comments


bottom of page