top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Hanaslagur stjórnmálaflokka


Eftir hefðbundnum mælikvarða eiga næstu alþingiskosningar að fara fram haustið 2025. Fyrirsvarsmenn stjórnmálaflokka eru farnir að láta í sér heyra um stefnuna framundan. T.d. var Morgunblaðið með viðtal við Kristrúnu Frostadóttur formann Samfylkingar um síðustu helgi.


Eitt sinn töldu menn að hlutverk stjórnmálaflokka væri að hafa pólitíska stefnu sem þeir skýrðu út með málflutningi sínum í því skyni að vinna kjósendur til fylgis við hana. Það má teljast hafa verið einkenni á ofangreindu viðtali, að það hafi hreint ekki einkennst af þessum viðhorfum. Flokkur formannsins virðist miklu fremur vilja taka upp þau viðhorf sem flokkurinn telur helst til vinsælda kjósenda fallin. Markmiðið virtist vera það eitt að tileinka sér þá stefnu sem gefur flest atkvæði. Kom fram að nú skyldu lögð niður þau pólitísku viðhorf sem þessi flokkur hefur helst barist fyrir undanfarin ár af mikilli sannfæringu, svo sem eins og baráttu fyrir aðild okkar að Evrópusambandinu og fleiri mál.


Viðhorf af þessum toga eru hreint ekki bundin við Samfylkinguna. Miklu fremur má núorðið telja þau ráðandi hjá flestum, ef ekki öllum, stjórnmálaflokkum. Þá telja þeir að lýðskrumið sé vænlegasti kosturinn. Þetta gildir m.a. um málflutning Sjálfstæðisflokksins, sem ætti að vera boðberi frelsis og ábyrgðar. Þessu ætti að fylgja af flokksins hálfu barátta gegn aukningu ríkisumsvifa og lækkun skatta. Vinna þarf háttvirta kjósendur til fylgis við þessa stefnu í stað þess að stunda yfirboð gagnvart öðrum flokkum um að gera allt fyrir alla með þeirri aukningu ríkisútgjalda sem slíkri stefnu fylgir. Menn ættu að þora að mæla fyrir sannfæringu sinni og vinna háttvirta kjósendur til fylgis við hana. Þetta er engan veginn einkenni á kosningabaráttu flokkanna nú um stundir. Það er miklu fremur líkast því að þeir séu að taka þátt í kappleik á borð við þann sem íþróttafélög stunda hvert gegn öðru.


Ég er viss um að sá flokkur myndi vinna á gagnvart almenningi sem sýndi að hann stæði fyrir einhver grunnviðhorf sem hann væri ekki tilbúinn til að selja í hanaslag samtímans.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

bottom of page