
Að undanförnu hefur verið fjallað um fjárstyrki ríkisins til Flokks fólksins undanfarin ár og ráðstöfun þeirra. Ég óskaði eftir að Ríkisendurskoðun sendi mér ársreikninga þessa flokks undanfarin ár og kom þá í ljós að styrkir frá ríkissjóði og Alþingi árin 2018 til 2023 nema samtals um 400 milljónum króna. Ekki kemur fram að þessu fé hafi verið varið í annað en rekstrarútgjöld flokksins. Verður því ekki séð að ríkisstyrkjunum hafi verið varið til persónulegra útgjalda starfsmanna hans á þessu tímabili eins og margir hafa haldið fram.
Af reikningunum kemur fram að bókaður hreinn hagnaður ofangreind ár nemur 94 milljónum króna, þegar tap ársins 2021 (60 milljónir) hefur verið dregið frá samanlögðum hagnaði þessara ára. Er hagnaður af rekstrinum öll árin jákvæður nema árið 2021.
Eftir stendur spurningin um hvernig það geti staðist að ríkissjóður styrki stjórnmálaflokka sem bjóða fram í kosningum um milljónatugi umfram það fé sem þeir verja til kosningastarfs.
Kannski það sé skýringin á mörgum framboðum smáflokka að nú virðist það vera orðin gild leið til fjáröflunar að bjóða fram lista í kosningum?
Ég hef lagt til að þessari styrkjastarfsemi verði hætt og þeim sem bjóða fram í kosningum verði gert að afla sjálfir fjár til að kosta þá starfsemi. Þessar tölur styrkja svo um munar þá afstöðu.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur