Jón Steinar Gunnlaugsson
Hópvinna í fræðiskrifum

Nokkuð hefur borið á því að undanförnu að fræðimenn í lögfræði, sem vilja láta verk sín á þrykk út ganga, geri það í félagi við aðra fræðimenn. Tvö nýleg dæmi eru „Hrunréttur“ eftir Ásu Ólafsdóttur, Eyvind G. Gunnarsson og Stefán Má Stefánsson og „Eignarnám“ eftir Karl Axelsson og Ásgerði Ragnarsdóttur. Þessi rit eru sögð ritrýnd en í því felst ábending um að hin fræðilega hlið þeirra hafi gengið í gegnum hreinsunareld, sem geri viðkomandi rit sérlega trúverðugt.
Ég læt það eftir mér að gagnrýna þennan hátt á fræðiskrifum. Með því að skrifa með öðrum draga höfundar úr persónulegri ábyrgð sínni á skrifunum. Ég hef til dæmis orðið var við misfellur í báðum þessum bókum. Þegar ég hef haft samband við einhverja höfundanna til að benda á þetta, hef ég fengið þau svör að viðmælandi minn hafi ekki tekið eftir misfellunni, þar sem hún sé frá samhöfundi komin, og hafi viðmælandinn treyst á vinnubrögð hans án þess að yfirfara þau sérstaklega.
Þetta er ekki gott. Það er þýðingarmikið að fræðimaður sem gefur út fræðibók beri beina og óskoraða ábyrgð á efni bókarinnar. Fræðimenn eiga að vinna sjálfstætt að rannsóknum sínum og fræðiskrifum, þó að þeir nýti sér auðvitað útgefin verk annarra fræðimanna og vitni til þeirra. Hópvinna á ekki vel við um fræðilegar rannsóknir og skrif.
Svo ég beini því til fræðimanna sem hafa hugsað sér að gefa fræði sín út í skrifuðu formi, hvort sem er í bókum eða fræðiritum, að standa þar einir að verki svo ábyrgð þeirra á því sem þeir skrifa sé skýr, eins og hún þarf að vera.
Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi prófessor í lögfræði