• Jón Steinar Gunnlaugsson

Hóphyggja

Updated: Oct 14, 2020


Hafa menn leitt hugann að því hversu mjög félög og flokkadrættir eru sterkar frumforsendur fyrir alls kyns ágreiningi og voðaverkum manna? Hóphyggjan er fyrirbæri sem rænir menn heilli hugsun og hindrar þá í að taka ábyrgð á sjálfum sér. Það er svo miklu auðveldara að taka þátt í einhverju sem hópurinn gerir. Félagar í hópnum þurfa ekki að taka persónulega ábyrgð á háttsemi hans. Nóg er að vísa til þess að hópurinn hafi tekið afstöðu og félagarnir í hópnum styðji hana. Þetta er líka stundum nefnt hjarðhegðun, sem er lýsandi orð fyrir svona breytni.

Mér er nær að halda að hóphyggjan sé ráðandi háttur í samfélagi mannanna. Menn eru með einum hópi og þá gegn öðrum. Styrjaldir eru t.d. reknar í nafni hópa. Ein þjóð ræðst á aðra og drepur sem mest hún má. Þeir sem drepnir eru hafa fæstir nokkru sinni gert á hluta þeirra sem drepa. Þeir sem tilheyra einni þjóð standa saman og þá eftir atvikum gegn öðrum þjóðum. Persónuleg háttsemi og ábyrgð kemur sjaldnast við sögu. Sama má segja um trúarhópa, sem reglulega fremja illvirki á fólki úr öðrum hópum. Nú er frá því sagt að mörgum, jafnvel flestum, almennum borgurum í Þýskalandi Hitlers hafi verið kunnugt um útrýmingu gyðinga en ekki látið málið samt neitt til sín taka.

Og innan vébanda þjóðanna byggist mannlífið á hóphyggju. Menn eru sýknt og heilagt að leggja málstað lið bara fyrir þá sök að þeir tilheyra hópnum sem færir hann fram. Í félögum er mjög oft kallað eftir samstöðu félagsmanna um svonefnd baráttumál þeirra. Þá er verið að biðja félagsmennina um að leggja ekki sjálfstætt mat á það sem um ræðir, heldur einfaldlega styðja það á grundvelli hóphyggjunnar. Og það dugar flestum. Þeir þurfa ekki að finna nein önnur rök fyrir afstöðunni en þau að hópurinn hafi hana.

Á vettvangi stjórnmála háttar oftast svo að flokkarnir hafa afstöðu sem fulltrúum á þeirra vegum er talin bera skylda til að fylgja. Allt að einu er skýrt á það kveðið í stjórnarskrá að alþingismenn séu eingöngu bundnir við sannfæringu sína (48. gr.). Hollustan við hópinn (flokkinn) tekur þessu samt oftast fram. Segja má að slík hóphyggja sé að hluta til nauðsynleg, þar sem mynda þarf hópa til að unnt sé að hafa skikk á landstjórninni. Þetta gengur samt oftast miklu lengra en nauðsyn krefur.

Og fjölskipaðir dómstólar eru ofurseldir hóphyggjunni. Þar eru dómar oftast kveðnir upp án þess að einstakir þátttakendur í hópnum geri sérstaklega grein fyrir sinni afstöðu og rökum fyrir henni. Samt eiga þeir aðeins að beita réttarheimildum, eins og þeir skilja þær, við úrlausn málanna. Sumir dómarar hafa meira að segja kveðið upp úr um að samstaða innan hópsins sé sérstakt keppikefli. Þessi aðferðafræði felur það í sér að niðurstaða dómsmála ræðst fremur af samningum innan hópsins en af beitingu réttarheimilda. Dómari sem fékk að ráða í síðustu viku skuldar hinum samstöðu í þessari svo ekki hallist á í hópnum. Aðilar dómsmálanna verða fórnarlömb hóphyggjunnar.

Þó að fallast megi á að hópar séu að vissu marki nauðsynlegir og gagnlegir, ætti það sem við getum kallað einstaklingshyggju að ráða miklu meiru um hagi okkar og afstöðu. Menn eiga að taka sjálfir afstöðu til málefna í miklu ríkari mæli en nú er og vera tilbúnir til að taka ábyrgð á þeirri afstöðu. Mér er nær að halda að styrjöldum og hernaðarlegum voðaverkum myndi fækka í heiminum ef menn tækju upp þennan hugsunarhátt í miklu ríkari mæli en nú er gert og legðu hóphyggjuna til hliðar sem almennan lífsmáta, eins og hún svo sannarlega er nú.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

© 2018 JSG lögmenn, Skólavörðustíg 12, 101 Reykjavík og Kaupvangi 6, 700 Egilsstöðum. Netfang: upplysingar@jsg.is. Sími: 5301230.

  • s-facebook
  • s-linkedin