top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Háskólamenn„Við undirrituð, starfsfólk við Háskóla Íslands, lýsum yfir stuðningi við palestínsku þjóðina, baráttu hennar fyrir tilvistarrétti sínum gegn ísraelskri nýlendustefnu og þjóðarmorði.“

Þetta eru inngangsorð sem 315 íslenskir háskólakennarar sameinuðust um í síðustu viku. Þar var ekki minnst á hver voru upptök stríðsátakanna í Palestínu, en þau voru hryðjuverkaárás Hamas-samtakanna í Palestínu á Ísrael sem áttu sér stað 7. október s.l. Þar voru saklausir borgarar drepnir í stórum stíl og aðrir fluttir sem gíslar til Palestínu.


Íslensku kennararnir segjast leita sannleikans en minnast ekki á upphaf þeirra átaka sem þarna er fjallað um. Menn sem elska sannleikann geta varla fjallað um þessa atburði án þess að nefna upphafið. Hryðjuverkamennirnir vissu vel hver viðbrögð Ísraelsmanna yrðu en létu sér það í léttu rúmi liggja. Virðast þeir ekki láta sig það nokkru skipta þó að aðgerðir þeirra hafi leitt til fyrirsjáanlegra mannvíga á báða bóga, þar sem saklausir borgarar og börn yrðu fórnarlömb mannvíganna. Þvert á móti virðast hryðjuverkamennirnir nota fólkið sem eins konar skildi fyrir árásum Ísraelsmanna.


Menn geta spurt sjálfa sig hvort nokkurt ríki í veröldinni hefði látið það afskiptalaust að ráðist yrði á það á þann hátt sem Hamas gerði 7. október. Þessir íslensku háskólamenn virðast telja að Ísraelsmenn hefðu ekkert átt að bregðast við. Það er sannarlega hörmulegt að saklausir borgarar og börn skuli verða fórnarlömb í stríði eins og þarna er háð. Sannleiksleitandi íslenskir háskólamenn ættu hins vegar að segja alla söguna í stað þess að koma fram sem hlutdrægir baráttumenn gegn öðrum aðilanum í þessu dapurlegu atburðum. Þjóðfélagsrýnirinn Guðmundur Ólafsson sagðist á fasbókinni vera stoltur af kennurunum. Mér finnst að hann hefði frekar átt að skammast sín fyrir þá.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

Commenti


bottom of page