• Jón Steinar Gunnlaugsson

Guðlegir hæfileikar?


Menn sem nauðga eiga ekkert gott skilið. Hið sama gildir, og það jafnvel enn frekar, um þá sem misnota börn kynferðislega. Flestum okkar finnst þau brot með því auvirðilegasta, sem fyrir ber. Mönnum sem þau fremja ber auðvitað að refsa þunglega og má líklega telja að dómar hér á landi í svona málum séu frekar of vægir en þungir.


Svo vitum við líka að dómar yfir þessum brotamönnum valda þeim oft miklu þyngri viðurlögum en þeim sem birtast í dómsorðinu, því aðrir taka að fyrirlíta þá auk þess sem þeir missa oft fjölskyldu sína og atvinnu. Segja má að þá verði dómsorðið að hálfgerðum hégóma við hliðina á öðrum afleiðingum fyrir þessa afbrotamenn.


Þessar kringumstæður gera það nauðsynlegt að dómstólar vandi sig alveg sérstaklega við meðferð þessara mála. Við viljum alls ekki að þessi þungu viðurlög séu lögð á sakborningana, nema alveg sé ljóst að þeir hafi drýgt þau brot sem þeim eru gefin að sök. Enginn siðaður maður getur viljað að allt þetta harðræði sé lagt á aðra menn, sem ekki hafa til þess unnið.

Öll vitum við að sönnunarstaða er oft mjög erfið í svona málum, þegar sakborningur neitar sök. Stundum eru meint brot gömul og því enginn brotavettvangur til staðar. Þá er sjaldnast vitnum til að dreifa.


Á hinn bóginn vitum við að brotaþolar segja langoftast satt og rétt frá brotunum, þó að ekki sé unnt að sanna þau. Mikill meirihluti af kærum á örugglega við rök að styðjast. Þessar aðstæður hafa valdið því að fjöldi fólks hefur haft uppi kröfur um að slakað sé verulega á sönnunarkröfum í þessum málum, þó að stjórnarskrá, íslensk lög og alþjóðlegar skuldbindingar kveði skýrt á um að ekki megi refsa mönnum nema brot sé sannað með þeim hætti að sök verði ekki véfengd með skynsamlegum rökum.


Þessar sönnunarreglur gilda í öllum ríkjum sem talist geta réttarríki. Ástæðan er auðvitað sú að við viljum alls ekki að saklausum sé refsað að ófyrirsynju. Samt er það svo að íslenskir dómstólar hafa látið undan þessum háværu kröfum í stórum stíl. Má jafnvel segja að búið sé að snúa sönnunarbyrði við. Séu sakir bornar fram verði hinn sakaði að sanna sakleysi sitt. Stundum er því líka hreinlega sleppt í forsendum dóms að geta um varnir sakbornings, sem lögskylt er að fjalla um. Þetta leiðir til þess að lesendur dóms geta þá ekki lagt sitt mat á úrlausnina, þar sem þeim atriðum er sleppt sem henta ekki niðurstöðunni. Afleiðingin af þessum vinnubrögðum er sú að svo og svo margir saklausir hafa verið ranglega dæmdir. Þessar kringumstæður eru m.a. til þess fallnar að gera fólki kleift að ná sér niðri á öðrum með því að bera fram rangar sakargiftir á þeirra hendur.


Dómstólar verða að taka sig á í þessum efnum. Dómarar verða að skilja að þeim er ekki ætlað að svara spurningu um hvað gerst hafi í raun og veru. Þeir eiga aðeins að svara spurningu um hvað sannast hafi með lögfullum hætti fyrir dómi um brot sem ákært er fyrir. Dómarar eiga líka að hafa þekkingu og þjálfun í að svara þeirri spurningu, þó að þeir geti ekki, fremur en aðrir menn, svarað því hvað gerst hafi á tilteknu augnabliki í fortíðinni, ef sönnunargögnum er ekki til að dreifa. Til þess þarf guðlega hæfileika, sem dómarar búa að jafnaði ekki yfir.

Dómarar verða að hafa þrek til að standa gegn háværum kröfum um að þeir geri eitthvað annað en að gegna starfsskyldum sínum, jafnvel þó að slíkt dragi úr persónulegum vinsældum þeirra á mannfundum. Getum við ekki flest verið sammála um það?


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

© 2018 JSG lögmenn, Skólavörðustíg 12, 101 Reykjavík og Kaupvangi 6, 700 Egilsstöðum. Netfang: upplysingar@jsg.is. Sími: 5301230.

  • s-facebook
  • s-linkedin