top of page
Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Grundvöllur velferðar

Það er eins og margt fólk í samfélagi okkar eigi erfitt með að skilja hvar grunnstoðin fyrir velgengni og góðum kjörum almennings liggur. Samt ættu menn að átta sig á þessu með því að skoða heimsmyndina sem við okkur blasir. Það er nefnilega augljóst að velgengnin er mest, þar sem mönnum er frjálst að verða ríkir ef þeir ástunda atvinnu sína með sölu á vörum eða þjónustu, sem almenningur sækist eftir. Þetta getum við kallað kapitalisma og fylgir þá gjarnan með lýðræðisleg stjórnskipan og raunveruleg réttarvernd dómstóla.

 

Þessa skipan er okkur skylt að bera saman við skipulag þar sem handhafar ríkisvaldsins beita valdi sínu til að taka ákvarðanir um framleiðslu og sýslan þeirra sem vilja sjálfir hagnast í viðskiptum, eins og flestir vilja. Þessu fyrirkomulagi fylgir yfirleitt ófrelsi og kúgun, þar sem mönnum er jafnvel refsað fyrir áræðni og hugmyndaauðgi í atvinnulífinu.

 

Við höfum átt því láni að fagna að koma á stjórnskipan af fyrri tegundinni. Reyndar eru línur sjaldnast skýrar í þessari aðgreiningu, því valdhafar hafa oftast tilhneigingu til að takmarka frelsi í því skyni að geta úthlutað lífsins gæðum til sjálfs sín eða annarra.

 

Við getum líka litið til fortíðar okkar eigin þjóðar. Ég skrifaði t.d. fyrir allnokkru síðan greinastúf um forfeður mína sem fyrir rúmlega hundrað árum bjuggu í torfbæ norður við heimskautsbaug með öllum þeim þrengingum sem slíkum aðstæðum fylgja. Enginn býr lengur við slík skilyrði.

 

Nú sést velferðin á hverju strái. Venjulegt fólk býr í eigin húsnæði, ekur um á glæstum bifreiðum og fer reglulega í orlofsferðir til sólríkra landa. Með því er ég ekki að segja að allir hafi allt til alls. Allir hafa hins vegar haft ómælt gagn af velferðinni sem fylgir frjálsu markaðskerfi og lýðréttindum sem við erum svo lánsöm að hafa virt í meginatriðum þó að þar megi lengi um bæta.

 

Menn ættu að bera hagi almennings í hinum kapitalísku ríkjum saman við kjör manna í ríkjum sam þurfa að lúta alræðisvaldi stjórnarherranna. Þar er mönnum oft refsað fyrir velgengni og almenningur líður fyrir bág kjör sín. Að auki er ástandið víða svo að menn eru sviptir frelsi og jafnvel lífi fyrir að lúta ekki herrum sínum í einu og öllu. Þar eru mannréttindi oftast lítt vernduð og dómstólastarf er bágborið. Við heyrum nær daglega fréttir af slæmum kjörum meðbræðra okkar sem þurfa að lifa við skipulag alræðis.

 

Flest erum við á þeirri skoðun að réttlætanlegt sé að bæta kjör þeirra sem minna mega sín ef bágindin stjórnast af erfiðum lífskjörum sem menn ráða ekki við. Reglulega heyrist hins vegar málflutningur um að bæta megi kjör alls almennings með því að takmarka frelsi þeirra sem hagnast í viðskiptum og færa hagnaðinn til almennings með valdi í stað viðskipta. Þetta er reyndar að nokkru leyti gert með skattheimtu sem oftast er ranglát og gengur allt of langt. Er ekki einfaldlega skynsamlegra að reyna að skilja hvar velferð okkar liggur og reyna frekar að styrkja hag þeirra sem afla fjár fyrir samfélagið en veikja hann?


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

bottom of page