• Jón Steinar Gunnlaugsson

Gott framtak


Í fréttatilkynningu á heimasíðu utanríkisráðuneytisins var nú nýlega sagt frá því að svonefnt Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna hefði að frumkvæði Íslands nú nýlega samþykkt ályktun, þar sem vikið var að stöðu mannréttindamála á Filippseyjum. Með samþykkt ályktunarinnar lýsti ráðið formlega yfir áhyggjum af ástandinu á Filippseyjum, hvatti stjórnvöld í landinu til að stöðva aftökur á fólki án dóms og laga og draga þá til ábyrgðar, sem hefðu staðið fyrir slíku.


Tilefni þessa framtaks eru samfelldar fréttir um að á Filippseyjum hafi stjórnvöld látið hersveitir sínar taka borgara af lífi á götum úti án dóms og laga ef grunur hefur verið uppi um fíkniefnabrot þeirra. Hefur mátt skilja að ekki hafi þurft hersveitir til, heldur hafi öðrum borgurum verið heimilað að svipta menn lífi ef slíkar sakir voru hafðar uppi.


Í þessari ályktun var ennfremur farið fram á að stjórnvöld á Filippseyjum sýndu skrifstofu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna, sem og stofnunum mannréttindaráðsins, fullan samstarfsvilja. Þá var mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna falið að standa fyrir skýrslugerð um stöðu mannréttindamála á Filippseyjum og leggja fyrir mannréttindaráðið að ári liðnu.


Ástæða er til að lýsa ánægju með þetta framtak Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Það tilheyrir grunnreglum í réttarríkjum að stjórnvöld beiti fólk ekki refsingum nema að undangenginni málsmeðferð fyrir dómi, þar sem sakborningar hafa óskert tækifæri til að verjast ásökunum. Þessi réttindi eru núlifandi Íslendingum í blóð borin, enda snerta þau grundvallar mannréttindi borgara í hvaða ríki sem er.


Fagna skal því sem vel er gert. Ástæða er til þess nú.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

© 2018 JSG lögmenn, Skólavörðustíg 12, 101 Reykjavík og Kaupvangi 6, 700 Egilsstöðum. Netfang: upplysingar@jsg.is. Sími: 5301230.

  • s-facebook
  • s-linkedin