• Jón Steinar Gunnlaugsson

Gátlisti í sakamálum

Nú á tíðum er algengt að almenningur taki afstöðu til þess, hvort dómar í refsimálum séu „réttir eða rangir“. Margir telja sig þess umkomna að telja sakborninga seka þó að dómstóll hafi sýknað þá af ákæru. Færri telja sakborninga saklausa ef dómstóll hefur sakfellt þá.

Af þessu tilefni er ástæða til að endurbirta það sem ég hef nefnt gátlista og hefur að geyma upptalningu á þeim atriðum sem dómarar þurfa að aðgæta að séu allir í lagi áður en sakborningur er sakfelldur í sakamáli:

1. Lagaheimild til refsingar þarf að vera í settum lögum. Efni hennar þarf að vera skýrt og ber að túlka vafa sakborningi í hag.

2. Ekki má dæma sakborning fyrir aðra háttsemi en þá sem í ákæru greinir.

3. Heimfæra þarf háttsemi til lagaákvæðis af nákvæmni. Dómendur hafa ekki heimild til að breyta efnisþáttum í lagaákvæðum sakborningum í óhag.

4. Sanna þarf sök. Sönnunarbyrði hvílir á handhafa ákæruvalds.

5. Við meðferð máls á áfryjunarstigi þarf að gæta þess að dæma sama mál og dæmt var á neðra dómstigi. Til endurskoðunar eru úrlausnir áfrýjaðs dóms; ekki annað.

6. Sakborningar eiga rétt á að fá óheftan aðgang að gögnum sem aflað hefur verið við rannsókn og meðferð máls.

7. Sakborningar eiga að fá sanngjarnt tækifæri til að færa fram varnir sínar.

8. Dómarar verða að hafa hlutlausa stöðu gagnvart sakborningum.

Þessar reglur kunna að leiða til þess að sekur maður verði sýknaður í dómsmáli gegn honum. Það er gjaldið sem við greiðum fyrir að geta kallast réttarríki.