• Jón Steinar Gunnlaugsson

Fyrirmynd


Nú liggur fyrir að Ísland náði ekki að tryggja sér rétt til að leika í fjögurra liða úrslitum í Evrópumótinu í handknattleik, þó að nærri hafi legið. Allt að einu er ljóst að íslenska liðið stóð sig með afbrigðum vel og aflaði sér virðingar annarra þjóða sem þátt tóku í mótinu og reyndar allra þeirra sem fylgdust með framvindu mála.


Við erum stolt af leikmönnum okkar, sem voru sjálfum sér og þjóð sinni til sóma. Einn er samt sá maður sem við ættum að hrósa og þakka öðrum framar. Þar á ég við Guðmund Guðmundsson þjálfara. Hann sýndi og sannaði að þar fer einn besti handboltaþjálfari heims. Þó að liðið okkar hreppti mikinn mótbyr vegna einangrunar leikmanna lét hann það ekki á sig fá. Hann tefldi fram þeim leikmönnum sem voru til reiðu hverju sinni og náði að draga fram styrkleika liðsins sem enginn hefði trúað fyrirfram að unnt væri við þessar aðstæður.


Hugmyndafræðin sem hann vinnur eftir fór ekki framhjá okkur sem fylgdumst með mótinu á sjónvarpsskjánum. Hann eyðir ekki tíma í atriði sem hann getur ekki haft áhrif á. Hann einbeitir sér að því verkefni sem hann hverju sinni þarf að sinna og fær félaga sína til að vinna heilshugar að þeim. Honum tekst svo vel upp að árangurinn gengur kraftaverki næstur. Ég held að hann geri leikmenn sína betri en þeir voru áður með eldmóði sínum og einbeitingu að verkefnunum hverju sinni. Í reynd er hann fyrirmynd hverjum þeim sem vill ná árangri í því sem hann tekur sér fyrir hendur hvort sem það er í íþróttum eða á öðrum vettvangi.


Ég býst við að ég tali fyrir munn íslensku þjóðarinnar þegar ég segi: Þakka þér fyrir Guðmundur. Þú ert frábær íþróttaþjálfari en ekki síður sem fyrirmynd fyrir hvern sem er.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur