top of page

Form og efni

Writer: Jón Steinar GunnlaugssonJón Steinar Gunnlaugsson

Að undanförnu hefur verið mikið rætt um framlög ríkis og sveitarfélaga til stjórnmálastarfsemi en um þau gilda lög nr. 162/2006. Gerðar voru allmiklar breytingar með lögum nr. 109/2021, þar sem kveðið var á um skilyrði þess að svonefnd stjórnmálasamtök nytu þessara framlaga. Áherslan í hefur legið á því hvort formreglum laganna um stofnun stjórnmálasamtaka og skráningu þeirra hefur verið fylgt.


Það er vissulega rétt að þeir sem styrkja njóta þurfa að hafa uppfyllt þessar formkröfur. En hver ætli sé tilgangurinn með þessum framlögum? Hann er sá að standa undir kostnaði við kosningabaráttu þeirra sem bjóða fram. Þannig er í lögunum kveðið á um að umsóknum um þessa styrki skuli fylgja afrit reikninga fyrir kostnaði sem fjárstyrk er ætlað að mæta. Síðan er mælt fyrir um um reikningsgerð eftirá um ráðstöfun fjárins sem eingöngu á að hafa gengið til greiðslu kostnaðar vegna alþingiskosninga og sveitastjórnarkosninga eftir atvikum. Skal þá farið eftir leiðbeiningum ríkisendurskoðanda. Ber stjórnmálasamtökum að skila reikningum sínum fyrir síðastliðið ár eigi síðar en 1. nóvember ár hvert og skulu þeir vera áritaðir af endurskoðendum.


Öll þessi umgjörð er sýnilega ákveðin í því skyni að hafa eftirlit með því að styrkjunum hafi í reynd verið eingöngu ráðstafað til greiðslu á kostnaði við framboð styrkþega. Formreglur laganna um stofnun stjórnmálasamtaka og skráningu þeirra eiga sýnilega að auðvelda athugun á því eftirá að styrkjunum hafi í reynd verið varið til þessara þarfa.


Af opinberri umfjöllun um þessi málefni að undanförnu hefur mátt ráða að einhver stjórnmálasamtök hafi ekki sýnt fram á þau hafi fylgt reglum laganna um skil á greinargerðum um að framlögin hafi verið nýtt í því skyni sem skylt er. Hefur þá m.a. verið dylgjað um að tilteknir fyrirsvarsmenn stjórnmálasamtaka hafi nýtt féð í þágu sjálfra sín og þannig gerst sekir um fjárdrátt. Þetta er auðvitað aðalatriði málsins. Hver var nýting þessara framlaga?


Ef stjórnmálasamtök geta nú, þó að seint sé, sannað að framlögin hafi í reynd verið notuð til þeirra þarfa sem lögin kveða á um, getur ekki orðið heimilt að endurkrefja viðkomandi samtök um framlögin. Þau ættu hins vegar að fara í skammarkrókinn fyrir að hafa ekki virt formreglurnar á þeim tíma sem til þess var gefinn.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

© 2018 JSG lögmenn, Skólavörðustíg 12, 101 Reykjavík og Kaupvangi 6, 700 Egilsstöðum. Netfang: upplysingar@jsg.is. Sími: 5301230.

  • s-facebook
  • s-linkedin
bottom of page