• Jón Steinar Gunnlaugsson

Farsi


Sagt er að Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra hafi sagt eitthvað miður fallegt í viðurvist annarra.


Enginn hefur hins vegar skýrt frá því hvað hann sagði nákvæmlega; ekki einu sinni hann sjálfur. Gefið er í skyn að hann hafi ekki viljað taka þátt í að tollera stúlku sem til stóð að heiðra með tolleringu. Komið hafi fram hjá honum að hún væri svört án þess að fyrir liggi að það hafi verið ástæðan fyrir að hann færðist undan þátttöku í tolleringunni.


Stúlkan er ekki svört. Hún er hins vegar af erlendu bergi brotin og mun húðlitur hennar vera dekkri en dæmigerðra innfæddra Íslendinga. Enginn veit hvað á að vera athugavert við það.


Ásökunin á hendur Sigurði felst í því að hann hafi sýnt af sér kynþáttafordóma með ummælum sínum.


Það er frekar undarlegt að telja kynþáttafordóma felast í því að segja að svartir menn séu svartir, ef það er á annað borð sagt. Til dæmis er stór hluti Bandaríkjamanna svartur og er ekki annað vitað en jafnan sé talað um þá sem svarta menn, án þess að nokkur telji slíkt athugavert.


Sigurður hefur sjálfur sagt að ummæli hans hafi verið óviðeigandi, án þess að skýra nánar í hverju það hafi verið fólgið. Engar upplýsingar liggja fyrir um að Sigurður eða flokkur hans hafi nokkru sinni viljað mismuna borgurum vegna húðlitar þeirra. Í umræðum um málið nefnir hann þetta ekki, heldur viðurkennir á sig sök, sem engin leið er að skilja í hverju á að hafa falist.


Upp rísa ræðumenn og veitast að Sigurði fyrir ummælin. Í þeim hópi eru alþingismenn. Þeir krefjast þess að Sigurður segi af sér ráðherradómi. Framganga hans sjálfs gefur þeim byr undir vængi. Ræðumenn leggja engan sjálfstæðan dóm á atvikið sjálft en segja bara við mannfólkið: „Sjáið hvað ég er góð manneskja, og miklu betri en Sigurður“.


Þessi vitleysa felur í sér vitnisburð um risið á þjóðfélagsumræðum hér á landi. Eina gilda ástæða Sigurðar fyrir að segja af sér er kannski að hann skuli ekki vera maður til að verja sig fyrir svona innihaldslausum dylgjum.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður