• Jón Steinar Gunnlaugsson

Er Ísland fullvalda ríki?

Hinn 5. febrúar fór fram málflutningur fyrir svonefndri yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) í máli Íslands vegna skipunar dómara í Landsrétt. Í fréttum var sagt frá málflutningi af hálfu Íslands í þessu máli, auk þess sem birt voru viðtöl við íslenska lögfræðinga sem gert höfðu sér ferð til Strassborgar til að hlusta á þennan málflutning. Hvort tveggja vekur undrun og áhyggjur svo ekki sé meira sagt.


Við Íslendingar erum aðilar að Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE). Efnisákvæðum sáttmálans var veitt lagagildi á Íslandi með lögum nr. 62/1994.


Í 2. gr. laganna er að finna svofellt ákvæði: Úrlausnir mannréttindanefndar Evrópu, mannréttindadómstóls Evrópu og ráðherranefndar Evrópuráðsins eru ekki bindandi að íslenskum landsrétti.


Í ákvæðum stjórnarskrár okkar felst að Ísland er fullvalda ríki. Þess vegna hefði það ekki staðist íslensku stjórnarskrána að kveða svo á að úrlausnir MDE skyldu verða bindandi hér á landi.


Dómur MDE 12. mars 2019 (sem skotið var til yfirdeildarinnar) hafði því ekki réttaráhrif hér á landi, eins og bent var á þá þegar. Í framhaldinu brugðust íslensk stjórnvöld hins vegar skyldum sínum. Þau höguðu sér eins og bindandi dómur hefði verið kveðinn upp þar ytra. Með framgöngu sinni síðan hafa þau hagað sér eins og fullveldi Íslands hafi verið framselt til dómstólsins, þrátt fyrir að lögin kveði skýrt á um að svo sé ekki, auk þess sem slík afstaða fékk ekki staðist íslensku stjórnarskrána. Dómararnir við Landsrétt sem um ræddi í málinu voru settir til hliðar og látnir hætta að dæma, svo ótrúlegt sem það er. Einhverjir þeirra hafa svo síðan sótt um stöður, sem þeir gegna fyrir! Ráðherra dómsmála vék úr ráðherraembætti vegna málsins, jafnvel þó að ráðherrann hefði ekki einu sinni skipað dómarana, sem MDE hafði talið skipaða án fullnægjandi lagaheimildar. Þessi atburðarás hefur verið með miklum ólíkindum.


Í stuttu máli má segja að íslensk stjórnvöld hafi, með tilstyrk nokkurra lögfræðinga, algerlega brugðist skyldum sínum gagnvart þjóðinni með viðbrögðum sínum. Og þetta er núna að endurtaka sig við málflutninginn fyrir yfirdeildinni. Það var átakanlegt að hlýða á fréttir af málflutningi lögmanns íslenska ríkisins fyrir yfirdeildinni, þar sem biðlað var til dómstólsins um að leysa íslenska dómskerfið úr viðjum. Hvaða viðjum? Íslensk lög kveða alveg skýrt á um að dómskerfið hefur ekki verið bundið í nokkrar viðjar.


Það er eins og Íslendingar missi stjórn á sér, ef erlendir menn segja eitthvað um íslensk málefni. Þá hætta stjórnendur ríkisins að ráða við verkefni sín sem stjórnendur fullvalda ríkis. Þeir drjúpa bara höfði í lotningu yfir löglausum ákvörðunum útlendinga, sem alveg er vafalaust að ekki hafa réttaráhrif hér á landi. Við hljótum að verðskulda merkilegri stjórnendur en þetta ef við viljum halda áfram að telja Ísland til fullvalda ríkja.


Menn ættu að skilja að aðild okkar að MDE hefur fullt leiðbeiningargildi fyrir íslenska löggjafann þó að fullveldi ríkisins hafi ekki verið framselt.