• Jón Steinar Gunnlaugsson

Engin réttaráhrif innanlands


Í 2. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu segir svo: „Úrlausnir mannréttindanefndar Evrópu, mannréttindadómstóls Evrópu og ráðherranefndar Evrópuráðsins eru ekki bindandi að íslenskum landsrétti.“


Með dóminum um daginn breyttist réttarstaða dómara við Landsrétt því ekki. Þeim ber skylda til að gegna störfum sínum áfram með þeim hætti sem starfsskyldur þeirra mæla fyrir um.


Á heimasíðu Landsréttar hefur á hinn bóginn verið birt tilkynning um að dómararnir fjórir muni að svo stöddu ekki taka þátt í dómstörfum. Þessi ákvörðun dómstólsins fær ekki staðist. Þetta eru dómarar sem skipaðir hafa verið til dómstarfa og ber skylda til að sinna þeim meðan þeir gegna embættum sínum. Ákvörðun dómsins sýnir að hinum vönduðustu íslensku lögfræðingum hættir til að fara á taugum yfir þessu furðuverki sem dómur MDE er.


Svo er önnur athugasemd. Til eru þeir sem telja að í því myndi felast viðurkenning á gildi dóma MDE hér á Íslandi að óska eftir því að yfirdeild dómstólsins endurskoði furðuverkið. Þetta er misskilningur. Við erum aðilar að dómstólnum. Það þýðir að íslenskir borgarar geta beint kærum þangað þegar þeir telja íslensk stjórnvöld hafa brotið á sér mannréttindi sem njóta verndar samkvæmt sáttmálanum. Í aðild okkar felst ákveðin viðurkenning á að dómar MDE kunni að hafa þýðingu fyrir okkur, þó að þeir hafi ekki bein réttaráhrif hér innanlands. Með því að óska eftir meðferð málsins fyrir yfirdeildinni eru Íslendingar aðeins að gefa dómstólnum sjálfum kost á að leiðrétta mistök sín. Í þeirri leiðréttingu myndi að minnsta kosti felast viðleitni dómstólsins til að ávinna sér traust og virðingu hérlendis, sem undanfarin ár hefur beðið hnekki, þó að ekki hafi fyrr verið svo alvarlegur sem nú.


Verði reyndin sú að yfirdeildin staðfesti þessa atlögu að fullveldi okkar ættum við að huga að viðbrögðum við því, m.a. hvort við teljum ástæðu til að halda áfram aðild að þessum sáttmála eða hvort ástæða verður til lagabreytinga hér innanlands til að styrkja það fyrirkomulag sem þegar er í gildi á Íslandi um áhrifaleysi þessara dóma á landsréttinn.


Svona kannski til að draga úr líkum á taugaáföllum íslenskra lögfræðinga.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

© 2018 JSG lögmenn, Skólavörðustíg 12, 101 Reykjavík og Kaupvangi 6, 700 Egilsstöðum. Netfang: upplysingar@jsg.is. Sími: 5301230.

  • s-facebook
  • s-linkedin