Lagareglur um starfsemi Hæstaréttar er að finna í lögum um dómstóla nr. 50/2016. Þessi lagaákvæði þarfnast endurbóta og eru eftirtaldar breytingar þýðingarmestar:
Í fyrsta lagi ber að fækka dómurum réttarins í fimm en þeir eru núna sjö talsins. Við stofnun Landsréttar minnkaði starfsálagið Hæstarétti svo að það varð aðeins 20-30% af því sem verið hafði. Eftir það var engin þörf á að dómarar réttarins yrðu fleiri en fimm og hefði það raunar verið vel í lagt.
Í öðru lagi ber að breyta reglum um skipan nýrra dómara, a.m.k. þannig að tryggt sé að sitjandi dómarar og kunningjahópur þeirra hafi þar engin áhrif. Samkvæmt 14. gr. stjórnarskrárinnar skulu ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum, eins og komist er að orði. Enginn vafi er á að skipun nýrra dómara fellur samkvæmt þessu undir dómsmálaráðherra. Hann (hún) er hins vegar núna nánast áhrifalaus um þetta.
Í þriðja lagi ætti að breyta reglum um atkvæðagreiðslur, þannig að dómarar greiddu hver um sig skriflega atkvæði um niðurstöður dómsmálanna. Þessi háttur yrði til þess fallinn að stuðla að persónulegri ábyrgð dómaranna við dómsýsluna og veitir ekki af. Þetta þekkist víða erlendis við æðstu dómstóla viðkomandi landa. Með breytingu á þessu myndi draga úr samningum milli dómaranna um niðurstöður, en upplýst hefur verið að það teljist nú um stundir ríkjandi sjónarmið innan réttarins að ná slíkum samningum fremur en að hver og einn dómari greiði atkvæði eftir eigin sannfæringu.
Dómsmálaráðherra ætti að flytja lagafrumvarp um þessar breytingar, þó að dómararnir við réttinn segist vera andvígir þeim, líklega vegna þess að þeir vilja eiga náðuga daga. Ráðherrann veit að ákvörðunarvaldið í ráðuneytinu er í hennar höndum en ekki embættismanna sem ganga erinda dómaranna. Breytingarnar myndu draga úr kostnaði ríkissjóðs auk þess að verða liður í þeirri andlitslyftingu sem ríkisstjórnin þarfnast sárlega um þessar mundir.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður
Commentaires