Eitt helsta áhugaefni margra Íslendinga nú orðið er að komast í orlof til sólríkra ferðamannastaða í suðrinu. Það er svo sem ekki ástæða til að kvarta yfir því að flest fólk hafi ráð á því að fara slíkar ferðir. Menn ættu samt í velferð sinni að muna eftir kjörum þjóðarinnar fyrir rúmlega einni öld eða svo.
Mér hefur stundum dottið í hug að skoða heimildir um lífskjör langafa míns og langömmu og bera þau saman við allsnægtirnar sem almenningur á Íslandi býr við á okkar tímum.
Þessi hjón hétu Ingibjörg Gunnlaugsdóttir og Gunnar Hafliðason. Þau bjuggu á jörðinni Skálahnjúki í Gönguskörðum árin 1859 til 1903. Gönguskörð eru vestur af Sauðárkróki á skaganum milli Húnaflóa og Skagafjarðar. Þetta er norður við heimskautsbaug og má geta nærri að þarna hafi veður verið válynd, einkum yfir vetrartímann. Þau hjónin eignuðust 7 börn og var amma mín Þorgerður Vilhelmína þeirra yngst, fædd 1878.
Húsakynni þessarar fjölskyldu voru torfbær, sem bæði hýsti menn og húsdýr. Þau áttu auðvitað ekki bifreið og þaðan af síður tvær bifreiðar, eins og algengt er að fjölskyldur eigi nú á tímum! Ef leið þeirra lá til annarra bæja notuðu þau hesta, sem þó voru ekki til staðar á sumum bæjum. Þau fóru aldrei í sólarlandaferðir! Þau fengu ekki mikil frí frá störfum við búskapinn, sem þau þurftu að sinna alla daga. Þau áttu svo til engin tæki til að vinna með, hvort sem var til að brjóta tún eða heyja þau. Til þessara starfa voru líkamskraftarnir notadrýgstir. Til matar notuðust þau að mestu leyti við þau matvæli, sem búskapur þeirra gaf af sér. Dagblöð og útvarp voru ekki í boði og fengu þau tíðindi af atburðum í öðrum héruðum í besta falli með farandfólki sem átti leið um.
Íslendingar eru flestir komnir af harðgeru fólki sem bjó við svipuð kjör og fjölskyldan að Skálahjúki. Þegar við hugsum til gjöfulla lífskjara í landi okkar nú á tímum, er okkur hollt að renna stundum huganum til þessa fólks. Það er ekki svo langur tími liðinn síðan það brá búi. Aðeins 120 ár. Upp úr þeim jarðvegi sem þetta fólk skapaði hefur sprottið eitt mesta velferðarríki í heimi manna. Við ættum að þakka því fyrir grundvöllinn sem það lagði að velferð okkar.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður
Commentaires