top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Einfalt og fagurt


„Það ætti að vera sameiginlegt verkefni þjóðarinnar að nýta þau lífsgæði sem hún er svo heppin að njóta í okkar gjöfula landi.


Verðmætustu auðlindir okkar eru líklega tvær. Við ráðum yfir kostum til að framleiða raforku í miklum mæli úr „náttúruvænum“ auðlindum, vatnsorku fallvatnanna og jarðhita úr iðrum jarðar, auk orkunnar úr vindinum sem fram að þessu hefur verið okkur til skapraunar. Síðan vitum við öll að auðlindir sjávar eru undirstaða undir velferð og auðlegð þjóðarinnar.


Það blasir við að möguleikar okkar til að viðhalda og bæta lífsgæði þjóðarinnar liggja á þessum sviðum. Samt erum við látlaust útsett fyrir ofstækisfullri baráttu samborgara okkar gegn því að nýta þessa stórkostlegu möguleika þjóðinni til framdráttar.


Fyrir liggur að stjórnkerfi fiskveiða hér á landi hefur náð meiri árangri í nýtingu fiskistofna en nokkur önnur þjóð hefur náð á því sviði. Samt er höfð uppi í landinu barátta fyrir að skera þetta kerfi niður við trog og útdeila veiðiheimildum til borgaranna þannig að „réttlæti“ náist í dreifingu þeirra. Allir viti bornir menn ættu að skilja að þetta væri vísasta leiðin til að brjóta niður auðlindina og skerða verulega arðinn sem þjóðin hefur nú af nýtingu hennar. Fari svo er ljóst að hagur borgaranna af þessari nýtingu mun rýrna en ekki aukast.


Svo eigum við að setja allan þann kraft sem við höfum yfir að ráða í að nýta betur þá náttúruvænu orkugjafa sem við eigum. Við ættum að virkja svo mikið sem mögulegt er og bjóða orkusveltum heimi viðskipti um kaup á orkunni um sæstrengi til þeirra. Þar sem virkjanir hafa verið reistar í landi okkar má segja að umgengni við umhverfið hafi verið til fyrirmyndar. Það þarf ekki annað en að kynna sér frágang á virkjanamannvirkjum Landsvirkjunar til að sjá þetta. Það er því hreinasta bábilja að ekki megi virkja af ástæðum sem varða vernd náttúrunnar. Þessu halda stjórnmálamenn fram sem m.a.s. hafa fengið þjóðfélagsleg völd í hendur en sýnast helst vilja hindra vöxt og viðgang þjóðarinnar.


Hvernig væri að hugsandi stjórnmálamenn og jafnvel flokkar tækju upp öfluga baráttu fyrir hagsmunum þjóðarinnar á þessum þýðingarmiklu sviðum?


Einfalt og fagurt, ekki satt?


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

bottom of page