top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Einfalt?


Í 2. mgr. 70. gr stjórnarskrárinnar er kveðið svo á að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skuli talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð.


Reglulega koma upp tilvik, þar sem menn eru bornir sökum um refsiverða háttsemi, sem þeir neita að hafa framið og ekki hafa sannast. Í slíkum tilvikum eru hinir kærðu einatt beittir viðurlögum á starfsvettvangi sínum. Hinum sakaða er þá oft vikið úr starfi sem hann gegnir eða beittur öðrum viðurlögum t.d. í íþróttum og þá meinað af þeim sem stjórna íþróttastarfseminni að taka opinberlega þátt í íþrótt sinni, svo þekkt dæmi séu nefnd. Algengast er að slík tilvik snúist um ásakanir um að hafa brotið gegn öðrum einstaklingum með kynferðislegum hætti, nauðgunum eða vægari refsiverðum brotum.


Með nokkrum rétti má halda því fram að hinn sakaði maður eigi rétt á að verða meðhöndlaður eins og hann sé saklaus vegna reglunnar um sakleysi þar til sekt hans sannast. Líklega má halda því fram að öðrum beri siðferðileg skylda til að taka þessa afstöðu til málsins.


En ætli málið sé svona einfalt? Við vitum að svona brot eru framin án þess að þau sannist ef sakborningur neitar. Oft eru aðeins tveir sem geta borið um brot, sakborningurinn og fórnarlamb hans. Það er líka oft ólíklegt að fórnarlambið beri fram sakir á hendur brotamanni, nema brotið hafi verið framið. Og þá er algengt að meiri hluti manna í okkar ófullkomna heimi „trúi“ þeim sem ber fram sakirnar, sem aftur leiðir til þess að hinir sökuðu eru beittir viðurlögum af einkaréttarlegum toga. Þeir missa þá ef til vill atvinnu sína eða eru útilokaðir af íþróttafélögum og samböndum þeirra til að taka þátt í keppnisíþróttum á vettvangi þeirra.


Það er vissulega svo að reglan í stjórnarskránni, sem nefnd var í upphafi þessarar greinar, fjallar fyrst og femst um sakir fyrir dómi og felur í sér bann við refsiviðurlögum dómstóla ef sök er ósönnuð. Hún gildir ekki í einkaréttarlegum samböndum, þó að hún kunni þar oft að hafa siðferðilegt vægi. T.d getur maki þess, sem sakaður er um brot, slitið sambandinu, án þess að verða talinn brjóta lagalegan rétt á hinum sakaða. Hið sama má segja um vinnuveitanda hins sakaða eða heimildir þeirra sem stjórna þátttöku hans í keppnisíþróttum. Ekkert bannar þessum aðilum að beita hinn sakaða viðurlögum, eins og mörg dæmi eru um. M.a. er hugsanlegt að fyrirtæki og félagasambönd missi viðskipti og tekjur ef þau bregðast ekki við gagnvart hinum sakaða.


En menn þurfa ekki að halda að málið sé svo einfalt sem að framan greinir vegna þess að þessi viðhorf greiða götu þeirra sem vilja bera fram ósannar sakir á hendur öðrum gagngert til að skaða þá með því að framkalla svona einkaréttarleg viðurlög. Jafnvel væri með slíkum hætti unnt að hindra sterkasta leikmann andstæðinganna í því að geta tekið þátt í úrslitaleiknum sem framundan er. Það er svosem ekki líklegt að slíkt gerist en möguleikinn er fyrir hendi. Svo er kannski líka möguleiki á að svipta menn atvinnunni með ásökunum um refsiverð brot þeirra.


Heimurinn er ófullkominn. Þessar síðastnefndu kringumstæður valda því að menn verða að fara fram með varfærnum hætti og muna þá eftir þeirri gildu siðferðisreglu, að menn teljist saklausir af refsiverðum brotum nema sök þeirra hafi sannast a.m.k. með sæmilegri vissu. Hver sagði að lífið væri einfalt?


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

Kommentare


bottom of page