
Nú hefur sitjandi dómsmálaráðherra látið þau boð út ganga að hún muni ekki beita sér fyrir því að dómurum Hæstaréttar skuli fækkað úr sjö í fimm. Samt er komið fram að við stofnun Landsréttar á árinu 2018 stóðu ekki efni til annars en að dómararnir yrðu fimm en ekki sjö. Segir ráðherrann að ekki sé tilefni til þessarar fækkunar þar sem sparast muni minna en 100 milljónir króna fram til ársins 2030 með því að fækka dómurunum um tvo!
Þá vita menn það. Óþörf útgjöld ríkissjóðs verða ekki afnumin nema þau nái fjárhæð sem ráðherrann telur þess virði að ná í ríkissjóðinn. Hvernig ætli þessi ráðherra hafi fundið upphæðina sem miða skyldi við þegar fjárhæðin var ákveðin? Það skyldi þó ekki vera að þeir sem hér eiga hagsmuna að gæta hafi fengið að leggja orð í belg um upphæðina? Um það veit ég ekki. Við blasir hins vegar að ráðherrann hefur ekki viljað fremja aðgerð sem hún vissi að myndi valda óvild dómaranna við réttinn. Forseti réttarins hafði reyndar skýrt frá andúð sinni í viðtali í sjónvarpi. Skýringar ráðherrans á ástæðunni fyrir því að miða skyldi við sparnaðarupphæðina hafi verið það eina sem henni datt í hug til að komast hjá því að vekja andúð dómaranna. Kannski nýir ráðamenn þjóðarinnar séu búnir að læra snillibrögð stjórnmálanna og hirði ekki um að reyna að betrumbæta hegðun þeirra sem sátu við völd á undan þeim? Persónulegir fjárhagsmunir þeirra sem þurfa að gæta hagsmuna sinna skipti meira máli en aðhald og sparnaður ríkissjóðs.
Þeir sem gerðu sér hugmyndir um að nýja ríkisstjórnin vildi beita réttsýni í meðferð fjármuna skattborgara fremur en dúsum til valdamikilla embættismanna ættu að hugsa málið á ný. Við misnotkun fjármuna verður líklega ekki séð fremur en fyrri daginn. Kannski sumir valdsmenn vilji bara skauta framhjá sjálfsögðum ákvörðunum ef þeir halda að aðrir taki þær óstinnt upp? Þjóðin á sýnilega von á góðu næstu misserin.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur