Leiðari Morgunblaðsins 30. september s.l. er afar athyglisverður. Þar er að finna hvassa gagnrýni á þá háttsemi Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) að hafa tekið sér vald til að beita nýjum og útvíkkuðum skilningi á ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE), sem á sér ekki stoð í löggjöf aðildarríkjanna.
Í leiðaranum segir m.a. svo:
„Árið 1978 úrskurðuðu dómarar við MDE að sáttmálinn væri „lifandi skjal“ sem dómarar mættu og ættu að þróa áfram með viðurkenningu og upptöku nýrra réttinda í anda upphaflega sáttmálans þó að þau væri ekki þar að finna“.
Morgunblaðið vísar til greinar sem Sumption lávarður, fyrrverandi hæstaréttardómari í Bretlandi, skrifaði í vikuritið Spectator þar sem hann færði rök fyrir því að Bretar segðu sig frá MSE. Benti lávarðurinn á að MDE hefði aldrei fengið umboð aðildarríkjanna til að útvíkka sáttmálann þannig að í reynd væri hann farinn að setja nýjar lagareglur sem hefðu bindandi gildi í aðildarríkjunum.
Fyrir liggur að dómstóllinn hefur tekið sér löggjafarvald í aðildarríkjunum án þess að hafa til þess lýðræðislegt umboð frá borgurum þeirra. Benti lávarðurinn á að löggjafi í einstökum ríkjum hefði heimild til lagasetningar sem styrkti og yki við mannréttindi innan ríkjanna eftir þörfum og nyti til þess lýðræðislegs umboðs. Hefðu lýðræðislega kjörnir löggjafar ríkjanna staðið sig vel við að styrkja mannréttindi innan þeirra án þess að lúta stjórn utanaðkomandi stofnunar sem aldrei hefði fengið lýðræðislegt umboð til lagasetningar sem yrði bindandi innan aðildarríkjanna.
Morgunblaðið segir að auðvitað standist þessi sjálftaka valds ekki. Dómstóllinn sé reistur á MSE, en hafi leyst sig undan upphaflegum ákvæðum hans um takmörkun á valdsviði dómstólsins án þess að spyrja aðildarríki sáttmálans. Þessi háttsemi sé ekki góður vitnisburður um virðingu dómstólsins fyrir lýðræðislegum leikreglum eða leikreglum almennt.
Rík ástæða er til þess að taka undir þessi sjónarmið. Þessi dómstóll fer ekki með löggjafarvald í aðildarríkjum MSE fremur en dómstólar almennt innan þeirra, sem samkvæmt stjórnarskrám ber skylda til að dæma bara eftir réttilega settri löggjöf ríkjanna sem stafar frá lýðræðislega kjörnum fulltrúum á þjóðþingum þeirra. Dómstólar eiga að halda sig við þetta en ekki setja ný lög, eins og sumir halda fram. Liggur fyrir að sjónarmið lávarðarins er að Bretum beri að segja sig frá aðild að MSE og þar með því valdi sem MDE hefur án lýðræðislegs umboðs tekið sér. Löggjafi ríkjanna sjálfra geti annast setningu laga sem ætlað er að styrkja vernd mannréttinda innan þeirra. Gildir þetta um önnur fullvalda ríki sem aðild eiga að þessum sáttmála. Á þetta við um Ísland ekki síður en Bretland. Ber að fagna því að áhrifamikill fjölmiðill eins og Morgunblaðið hefur tekið undir þessi augljósu sjónarmið.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður
Comments