• Jón Steinar Gunnlaugsson

Dómarar aðstoða ráðherra við stjórnsýslu


Á vefsíðu stjórnarráðsins er að finna upplýsingar um réttarfarsnefnd. Fram kemur að dómsmálaráðherra skipi hana. Hún hafi það hlutverk að vera ráðherra til ráðgjafar á sviði réttarfars, m.a. þegar samin eru frumvörp og aðrar reglur á því sviði í samræmi við áætlun og áherslur ráðherra. Þá er gert ráð fyrir að nefndin veiti umsagnir um frumvörp og aðrar tillögur sem varða réttarfar.


Ljóst er að þessi verkefni flokkast undir framkvæmdavald, þ.e. svonefnd stjórnsýsluverkefni. Á lögmæti þeirra kann að reyna í dómsmálum.


Í pistlinum um nefnd þessa á vefsíðunni kemur fram að þrír af fimm nefndarmönnum koma nú úr röðum skipaðra dómara við Hæstarétt. Tveir þeirra sátu í nefndinni þegar þeir voru skipaðir dómarar á síðasta vetri en sáu ekki ástæðu til að segja af sér þessum stjórnsýslustörfum við það tækifæri. Sá þriðji er núverandi forseti Hæstaréttar. Hann er ekki talinn líklegur til að afsala sér bitlingum sem honum hafa verið fengnir.


Skipunartími núverandi nefndarmanna er til 28. febrúar n.k.


Flestum hugsandi mönnum ætti að vera ljóst að ekki er við hæfi að dómarar við æðsta dómstól þjóðarinnar séu skipaðir til að veita ráðherra aðstoð við stjórnsýslu dómsmála. Þetta er ómur liðins tíma.


Væri ekki ráð að nútímakonan, sem nú gegnir embætti dómsmálaráðherra, óskaði eftir að hæstaréttardómararnir í réttarfarsnefnd segðu af sér þessum störfum hið bráðasta? Að minnsta kosti muni hún gæta þess við endurnýjun á mannvali í nefndina eftir næstu áramót að skipa þetta fólk ekki aftur í þessa nefnd.


Fróðlegt væri að heyra að minnsta kosti viðhorf hennar til þessa málefnis. Kannski Mogginn láti henni í té rými til þess?


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður