top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Besta kerfið


Á 8. og 9. áratug síðustu aldar var fyrst að ráði farið með lögum að takmarka sókn íslenskra veiðiskipa í fiskveiðistofnana við landið. Byggðist þessi stjórnun á þeim grunni, sem lagður var við lagasetninguna, að nytjastofnar við Ísland væru sameign íslensku þjóðarinnar, sem og því að stofnunum stafaði hætta af ofveiði landsmanna.


Komið var á því sem við höfum nefnt aflamarkskerfi, sem fólst í að úthluta til fiskiskipa hlutdeild í hámarksafla hinna mismunandi tegunda sjávarfangs, sem heimilt væri að sækja í sjó og ákveðinn væri af stjórnvöldum.


Allt frá því að tekið var að stjórna fiskveiðum við landið með þessum hætti hafa verið uppi gagnrýnisraddir, sem hafa talið rangindi felast í því að úthluta þessum verðmætu heimildum til útgerðarmanna og fyrirtækja þeirra. Nær væri að allir landsmenn fengju beina aðild að þeim verðmætum sem felast í nýtingu sjávaraflans. Virðast kröfur í þessa átt hafa farið vaxandi með árunum. Rétt er að líta til nokkurra atriða sem undirrituðum finnst skipta máli við hugleiðingar um þetta.


Frjáls aðgangur leiddi til ofveiði


Fram að þeim tíma, þegar tekið var til við að takmarka aflann á þann hátt sem að framan er lýst, höfðu Íslendingar haft frjálsan aðgang að fiskimiðunum. Hver sem vildi gat komið sér upp fiskibát og hafið veiðar. Þetta leiddi sýnilega til ofveiði sem gerði takmörkun sóknarinnar nauðsynlega. Þegar slíkri takmörkun var komið á með lögum varð auðvitað nauðsynlegt að ætla þeim sem höfðu stundað útgerð sérstaka hlutdeild í heildarveiðinni, sem byggðist á aflareynslu þeirra. Þeir höfðu m.a. fjárfest í fiskiskipum, oft með miklum tilkostnaði. Það hefði engan veginn staðist að svipta þá, sem fjárfest höfðu á þennan hátt, heimildinni til að nýta þessi verðmætu atvinnutæki. Slíkt háttalag hefði einfaldlega leitt til bótaskyldu íslenska ríkisins og hefðu bæturnar ekki numið neinum smáum upphæðum. Á sama hátt myndi það leiða til þungbærrar bótaskyldu íslenska ríkisins nú ef til stæði að svipta útgerðina aflaheimildum sínum.


Eignir í höndum borgaranna


Það samrýmist vel meginhugmyndum í lýðræðisríkjum að koma verðmætum atvinnutækjum í hendur þeirra sem atvinnuna stunda, enda sé gætt að málefnalegu jafnræði við ráðstöfun þeirra. Landsins gæði eru í slíkum ríkjum í einkaeigu borgaranna, svo sem fasteignir og aðrar eignir, námur og land, m.a. það sem nýtt er í landbúnaði. Bændur eiga ekki bara heimalönd jarða sinna heldur einnig tilkall til hálendissvæða til samræmis við nýtingu þeirra á slíku landi frá fornu fari. Stjórnskipun sem byggir á einstaklingseignarrétti er líka miklu líklegri til að skapa landsins lýð meiri verðmæti og tekjur heldur en fyrirkomulag í ríkjum sameignarsinna, svo sem saga mannkynsins sannar svo vel. Við hikum ekki við að segja að Ísland sé í sameign þjóðarinnar sem byggir landið, þó að yfirleitt allt land sé háð eignarrétti einstakra manna.


Ekkert tekið af öðrum


Þegar fiskveiðistjórnunarkerfi okkar var komið á var ekki verið að taka eignarréttindi af öðrum borgurum en útgerðarmönnum. Til dæmis sat ég sem lögmaður í miðbæ Reykjavíkur og varð ekki var við að neitt væri af mér tekið við lagasetninguna um stjórn fiskveiða við landið og úthlutun aflaheimilda. Ég naut þess hins vegar, eins og aðrir landsmenn, að þessi atvinnugrein við sjávarsíðuna blómstraði og skilaði góðri afkomu landslýð öllum til hagsbóta.


Kannanir sýna að íslenska kerfið skilar meiri efnahagslegum ábata en þau stjórnkerfi sem þekkjast hjá öðrum ríkjum.


Kröfur um sérstaka skattheimtu á þessa atvinnugrein umfram aðrar standast að mínum dómi ekki. Við hljótum að skattleggja íslenska borgara eftir lagareglum, þar sem jafnræðis er gætt og hið sama látið gilda um alla án tillits til þess á hvaða sviði atvinnulífs þeir afla sér tekna.


Þeir sem nú gera háværar kröfur um aukna hlutdeild almennings í verðmætum fiskimiðanna, ættu að hugsa sig aftur um. Meginviðhorfin sem orðið hafa ofaná í lagasetningu okkar á þessu sviði eru þau bestu sem völ er á þó að alltaf megi sjálfsagt bæta ýmis smáatriði í lögunum.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

bottom of page