top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Baktjaldamakk?

Í gær skrifaði ég á fasbók pistil um „afrek“ Katrínar Jakobsdóttur í stjórnmálasögu undanfarinna ára og áratuga. Kom þar fram að ég teldi hana hafa verið eindreginn sameignarsinna og að gjörðir hennar hefðu verið í beinni andstöðu við stefnumál Sjálfstæðisflokksins um frelsi, ábyrgð og takmörkuð ríkisafskipti. Síðustu árin hefði hún af hálfu Vinstri grænna stýrt óvinsælli ríkisstjórn með aðild þessara tveggja flokka og komist þar upp með gjörðir sem samstarfsflokkurinn ætti alls ekki að hafa þolað. Lýsti ég m.a. undrun minni á að forystumenn Sjálfstæðismanna hefðu nú hver af öðrum lýst stuðningi sínum við forsetaframboð Katrínar, þar sem þessi viðhorf hennar væru líkleg til að hafa áhrif á gjörðir hennar í forsetaembættinu. Við greiningu á fylgi hennar í könnunum hefur komið fram að kjósendur Sjálfstæðisflokksins væru stærsti pólitíski hópurinn sem styður hana.

 

Svo laust allt í einu niður í höfuð mér skýringin á þessu furðuverki. Hér lágu slóttugir samningar að baki. Að því er Katrínu snerti var orðið ljóst að hún og flokkur hennar myndi fá hroðalega útkomu í Alþingiskosningum sem haldnar verða á næsta ári. Metnaðarfull konan vissi að hún myndi eiga erfitt með að sætta sig við slík örlög. Fyrirsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins áttuðu sig líka á að þeirra biði afhroð í kosningunum framundan nema þeim tækist að gera breytingar á stöðunni þannig að kosningabaráttan yrði vænlegri.

 

Og var nú ekki sjálfsagt að semja? Katrín færi í forsetaframboð en Bjarni formaður íhaldsins forsætisráðherrastólinn. Þetta myndi henta báðum. Til þess að þetta gengi upp yrðu Sjálfstæðismennirnir að lofa Katrínu stuðningi í forsetakjörinu. Og það hefur gengið eftir. Morgunblaðið hefur greinilega tekið þátt í þessum slægvitru brögðum, því ekki verður annað séð en það styðji Katrínu til forsetakjörs svo undarlegt sem það er. Og forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafa sýnilega gert ráðstafanir til að fá stuðningsmenn sína til að kjósa Katrínu til forseta.

 

Er þetta það sem þjóðin vill? Baktjaldamakk til að tryggja sem best stöðu óvinsælla stjórnmálamanna? Ég skora á fjölmiðla að beina spurningum til þessara þátttakenda í makkinu um þetta, því vonir ættu að standa til þess að fæstir þeirra vilji taka áhættuna af að svara með ósannindum.

 

Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

Comentários


bottom of page