Róbert Spanó er vel metinn íslenskur lögfræðingur sem m.a. hefur gegnt embætti forseta Mannréttindadómstóls Evrópu. Hann skrifaði sérkennilega grein í Morgunblaðið s.l. fimmtudag 22, febrúar 2024. Þar heldur hann því fram að svonefnd bókun 35 leiði til þess að eldri íslensk lög skuli ganga fyrir yngri lögum ef þau fyrrnefndu eiga rót sína að rekja til EES samningsins og ekki er kveðið skýrt á um það í hinum yngri lögum að þau skuli gilda framar þeim eldri, þegar efnislegt misræmi felist í þessum tvennu lögum. Þetta geti t.d. gerst fyrir mistök Alþingis við setningu hinna yngri laga. Þá geti eldri lögin gengið fyrir hinum yngri. Telur hann þetta leiða af EES samningnum og felist ekki í því skerðing á fullveldi Íslands.
Þetta fær að mínum dómi ekki staðist. Það tilheyrir fullveldi Íslands að löggjafinn (Alþingi) setji lögin. Í því felst auðvitað að yngri lög skuli gilda framar hinum eldri ef þau eru annars efnis.
Mér finnst undarlegt að vel fram gengnir íslenskir lögfræðingar skuli telja þessu háttað á annan veg. Af því myndi leiða afsal fullveldis sem stjórnarskráin leyfir ekki.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður
Comments