top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Að sjá ekki skóginn fyrir trjánum


Í stjórnarskrá okkar er kveðið svo á að engan megi svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum. Þar er síðan að finna frekari ákvæði um réttarstöðu manna gagnvart frelsisskerðingum, m.a. um rétt til að leita til dómstóla vegna hennar.


Fyrir liggur að íslensk stjórnvöld hafa að undanförnu beitt íslenska ríkisborgara því valdi að meina þeim að fara heim til sín til að „afplána“ sóttkví þar, en skipa þeim þess í stað að vistast í „sóttvarnarhúsi“ þann tíma sem sóttkví varir.


Nokkrir borgarar hafa ekki viljað una þessu möglunarlaust og hafa þeir því borið þessa valdbeitingu undir dómstóla. Þar hafa fengist þær niðurstöður að þetta ofbeldi standist ekki fyrrgreinda meginreglu.


Aðrir Íslendingar ættu að fagna því að einstakir samborgarar þeirra skuli ekki sitja þegjandi undir þessari valdbeitingu og kalla eftir dómsúrlausnum um að hún standist ekki. Við ættum síðan einnig að fagna niðurstöðunum, því þær byggjast á því að hér séu að minnsta kosti að einhverju leyti í gildi raunveruleg borgaraleg frelsisréttindi sem snerta grundvöll stjórnskipunar okkar.


Ekki geri ég lítið úr því að gera þurfi ráðstafanir til að hemja veiruskrattann. En menn mega ekki missa stjórn á hugsunum sínum af því tilefni. Svo hefur nú brugðið við að hávaðasamar raddir hafa ekki bara veist að þeim einstaklingum sem hafa staðið vaktina í þessu heldur einnig að lögmönnum þeirra persónulega. Í hópi þeirra sem svona hafa talað er að finna ýmsa sem fram til þessa hafa viljað láta líta á sig sem frjálshuga borgara, sem vilji andæfa ofríki stjórnvalda, þegar við á.


Það er eins og veiran hafi heltekið þá. Hvað ætla þeir að gera við prinsippið um frelsi þegar á að beita þá frelsissviptingum vegna stjórnmálaskoðana eins og gert er um víða veröldina. Kannski þeir telji að skoðanafrelsi sé bundið við „réttar“ skoðanir.


Stundum er þessi blinda kölluð „að sjá ekki skóginn fyrir trjánum“.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

bottom of page