top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Afsökunarbeiðni


Á árinu 2019 kom út bókin „Hrunréttur“ eftir þrjá prófessora við lagadeild Háskóla Íslands, Ásu Ólafsdóttur, Eyvind G. Gunnarsson og Stefán Má Stefánsson. Meðal þess sem finna má í þessari bók þremenninganna er listi yfir skrif um hrunið og afleiðingar þess. Þar er að finna fræðigreinar, en einnig fjölmiðlaefni, aðsendar greinar og fleira. Er svo að sjá að þetta eigi að vera heildstætt yfirlit yfir allt slíkt efni sem birst hefur hér á landi.


Í bókinni er hins vegar hvergi minnst einu orði á skrif mín, hvorki í ofangreindum lista né við umfjöllun um einstaka dóma sem ég hef fjallað ítarlega um í skrifum mínum. Efni sem ég hef birt hafði hreinlega farið fyrir ofan garð og neðan hjá höfundunum.


Hinn 7. september 2019 birti ég grein í Morgunblaðinu um þetta. Kom fram í grein minni að líklegast hefði þetta verið gert vitandi vits og væri liður í viðleitni lögfræðingasamfélagsins til að beita á mig einhvers konar útilokun frá skrifum um lögfræði. Ég hefði skrifað í bókum og blöðum hvassa gagnrýni á ýmislegt í framkvæmd laga í landinu, þ.m.t. marga dóma Hæstaréttar. Þetta félli undir að geta kallast „þöggun“ á þessi skrif.


Ég hafði eftir útkomu bókarinnar samband við tvo af þremur höfundum bókarinnar og óskaði skýringar á þessum vinnubrögðum sem varla uppfylltu fræðilegar kröfur. Ábendingar mínar virtust koma þeim á óvart og könnuðust þeir ekki við þátttöku sína í vísvitandi þöggun á skrif mín. Þetta væru bara mistök við frágang á bók þeirra.


Nú þegar rykið er sest hef ég áttað mig á því að ég hafði ekki forsendur til að saka höfundana um að hafa gert þetta vísvitandi. Þetta voru að vísu misfellur við skrif bókar þremenninganna en ég trúi því sem þeir sögðu, að þetta væru hrein og klár mistök. Ég bið höfundana því afsökunar á að hafa borið annað eins og þetta á þá. Í reynd var meira í húfi fyrir þá en mig þar sem þessar misfellur í bókinni snertu þá miklu fremur en mig. Óska ég þessum ágætu lögfræðingum velfarnaðar í fræðastarfi sínu í framtíðinni.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

bottom of page