top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Afbökuð frétt hjá RÚV


Það er varla frambærilegt að fréttastofa RÚV skuli segja fréttir af dómi í alvarlegu sakamáli á þann hátt sem gert var s.l. sunnudagskvöld. Um er að ræða dóm héraðsdóms Reykjavíkur frá 18. ágúst s.l. þar sem sakborningi var ekki gerð refsing fyrir endurtekin og alvarleg brot með líkamsárásum á sambýliskonu sína. Sjónvarpað var viðtali við brotaþolann til að lýsa þeirri afstöðu hennar að refsa hefði átt manninum með þungum fangelsisdómi en þvert á móti hefði refsing verið felld niður. Ekkert væri í dóminum tekið tillit til sjónarmiða hennar um að fella hefði átt þungan refsidóm yfir manninum fyrir þessi alvarlegu brot. Svo var að sjá sem fréttamaðurinn sem tók viðtalið við brotaþolann tæki undir þessi sjónarmið. Að minnsta kosti var ekkert reynt að skýra fyrir áhorfendum hvers vegna dómsniðurstaðan var með þessum hætti þó að það sé ítarlega skýrt og rökstutt í forsendum dómsins. Samt var verið að fjalla um refsiákvörðun dómsins.


Tekið skal fram að svona mál skiptast í tvo þætti. Annars vegar er leyst úr um refsingu brotamanns og hins vegar um bótakröfu brotaþola. Brotaþolinn í þessu máli fékk sér tildæmdar bætur þó að ég geti tekið undir með henni að þær voru alltof lágar. Þær koma refsingu brotamannsins hins vegar ekkert við. Aðildin að refsikröfunni er í höndum saksóknara sem í þessu máli krafðist refsingar yfir manninum eins og venjulegt er.


Í almennum hegningarlögum er í 15. gr. að finna svofellt ákvæði:


„Þeim mönnum skal eigi refsað, sem sökum geðveiki, andlegs vanþroska eða hrörnunar, rænuskerðingar eða annars samsvarandi ástands voru alls ófærir á þeim tíma, er þeir unnu verkið, til að stjórna gerðum sínum.“


Í forsendum þessa dóms kemur fram að ákærði hafi játað brot sín undanbragðalaust. Hins vegar væri hann ekki sakhæfur því þar sagði orðrétt:


„Undir rekstri málsins var X geðlæknir dómkvaddur til að framkvæma geðrannsókn á ákærða og leggja læknisfræðilegt mat á hvort andlegt ástand ákærða hafi verið með þeim hætti að hann teljist sakhæfur í skilningi 15. gr. almennra hegningarlaga og ennfremur hvort fangelsisrefsing geti borið árangur í skilningi 16. gr. sömu laga. Er skemmst frá því að segja að matsmaður telur að ákærði hafi frá ársbyrjun 2018 haft nánast stöðug einkenni um geðveiki sem gerðu hann alls ófæran um að hafa stjórn á því ofbeldi sem hann er ákærður fyrir á ákærutímabilinu. Þá hafi ákærða frá vetri 2020 versnað enn frekar og hann verið fárveikur 17. maí 2020 við lok lýsts ákærutímabils. Þá telur matsmaður útilokað að refsing í formi fangelsisvistar geti gert ákærða minnsta gagn og líklegt að slík refsing yrði honum skaðleg. Loks telur matsmaður að ekki sé ástæða til að gera frekari ráðstafanir til að hindra að samfélagslegur skaði verði af ákærða, enda sé hann nú í föstu og reglulegu eftirliti hjá Y, sem og hjá geðlækni og taki virkan þátt í flókinni lyfjameðferð til að halda viðvarandi, geðrænum vandamálum í skefjum.“


Í ákvæðum dómsins um refsinguna segir svo:


„Með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi, sem samrýmist rannsóknargögnum máls, er sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefið að sök ….. og .. þykir rétt heimfærð til refsiákvæða. Með hliðsjón af niðurstöðu dómkvadds matsmanns um að hann telji að ákærði hafi verið ósakhæfur á ákærutímabilinu vegna alvarlegra geðrænna vandamála, sbr. 15. gr. almennra hegningalaga og að þess utan telji matsmaður að fangelsisrefsing geti ekki borið árangur…, sem og að ekki þjóni tilgangi að láta ákærða taka út refsingu á sérstakri stofnun, sbr. 1. og 2. mgr. 16. gr. sömu laga, er það niðurstaða dómsins að hvorki beri að gera ákærða refsingu í málinu né heldur að kveða á um sérstakar ráðstafanir samkvæmt 62. gr. laganna.“


Hvernig getur fréttastofa ríkisútvarpsins sagt frétt þar sem sérstaklega er fjallað um refsiákvörðun dómarans án þess að víkja einu orði að forsendum dómsins fyrir því að felld sé niður refsing á hendur manninum eins og skylt var samkvæmt lögum? Flestir þeirra sem hlustuðu á þessa furðulegu frétt hafa sjálfsagt talið að mannvonsku dómarans hafi verið um að kenna að manninum var ekki refsað. Er fréttamönnum óskylt að kynna sér málin sem þeir segja fréttir af í því skyni að geta gefið afar ranga mynd af þeim? Ætli þetta falli undir það sem nefnt hefur verið æsifréttamennska? Væri ekki nær að fréttastofa sem rekin er af sjálfu ríkisvaldinu leitist að minnsta kosti við að veita réttar og hlutlausar upplýsingar frekar en að afbaka þær eins og hér var gert?


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

Comments


bottom of page