top of page

Aðalatriði máls

Writer: Jón Steinar GunnlaugssonJón Steinar Gunnlaugsson

Morgunblaðið hefur að undanförnu flutt fréttir af styrkveitingum úr ríkissjóði til Flokks fólksins samkvæmt lögum frá 2021 (breyting á lögum nr. 106/2006) til þess að standa straum af kostnaði við framboð þessara stjórnmálasamtaka til Alþingis og sveitarstjórna.


Í þessum lögum kemur fram að samtök sem sækja um styrki þurfi fyrirfram að framvísa gögnum um að þau eigi rétt á styrkjum en síðan eftirá að framvísa bókhaldsgögnum um að styrkirnir hafi verið notaðir til þeirra þarfa sem lögin kveða á um.


Morgunblaðið hefur aðallega sýnt fram á að Flokkur fólksins hefur ekki framvísað gögnum sem leggja þarf fram til að eiga rétt á framlögum. Þetta eru auðvitað þarfar upplýsingar þegar athugað er hvort þessi framboðsaðili hafi uppfyllt skilyrði til að fá styrki. Hefur blaðið sýnt fram á að svo hefur ekki verið.


En það er önnur hlið á málinu sem telja má að skipti meira máli þegar þessar styrkveitingar eru skoðaðar. Það er greinargerð eftirá um að styrkirnir hafi í reynd gengið til að standa straum af þeim kostnaði sem um ræðir, en ekki t.d. til persónulegrar ráðstöfunar þeirra sem að framboði hafa staðið. Þannig segir í 9. gr. laganna að stjórnmálasamtök skuli fyrir 1. nóvember ár hvert skila ríkisendurskoðanda reikningum sínum fyrir síðastliðið ár, sbr. 8. gr., árituðum af endurskoðendum. Í nefndri 8. gr. segir m.a. að endurskoðendur sem árita reikninga þessa skuli starfa eftir leiðbeiningum ríkisendurskoðanda og sannreyna að reikningurinn sé saminn í samræmi við ákvæði laganna og staðfesta það álit með áritun sinni. Ríðikisendurskoðandi geti hvenær sem er kallað eftir öllum gögnum til að staðreyna reikninga stjórnmálasamtakanna.


Fram hafa komið opinberlega tilgátur um að fyrirsvarsmenn Flokks fólksins kunni að hafa ráðstafað þessu fé til persónulegra þarfa sjálfra sín. Hér er um að ræða tugi milljóna árlega undanfarin ár. Það er auðvitað aðalatriði málsins að upplýsa hvort málum sé svona farið. Sé svo sýnist að um sé að ræða refsiverða háttsemi þessara fyrirsvarsmanna, sem falli undir að teljast auðgunarbrot samkvæmt almennum hegningarlögum.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

© 2018 JSG lögmenn, Skólavörðustíg 12, 101 Reykjavík og Kaupvangi 6, 700 Egilsstöðum. Netfang: upplysingar@jsg.is. Sími: 5301230.

  • s-facebook
  • s-linkedin
bottom of page