• Jón Steinar Gunnlaugsson

Þankabrot

Að undanförnu hefur Morgunblaðið fjallað á margþættan hátt um vinnubrögðin sem hafa tíðkast við skipun nýrra dómara í landinu undanfarin ár. Blaðið á þakkir skildar fyrir þessa umfjöllun, sem blaðamaðurinn Baldur Arnarson hefur annast af vandvirkni. Komið hefur í ljós að hér er á ferðinni eitthvað sem kalla mætti glórulausa vitleysu, þar sem sjónarmið um mat á umsækjendum og uppröðun þeirra hafa breyst við hvert tilvik.


Ástæðan fyrir þessu rugli er að mínum dómi nokkuð augljós. Á árinu 2010 var gerð breyting á lögum sem færði fulltrúum í matsnefnd vald til að ákveða hverjir skyldu verða fyrir valinu þegar skipað yrði í embætti. Með þessum hætti var valdið til þessara ákvarðana í reynd fært í hendur þeirra sem áhrifamestir eru í lögfræðingahópnum, sem ræður í dómskerfinu, en bera enga raunverulega ábyrgð á gjörðum sínum. Það er reyndar hæpið að þetta fyrirkomulag hafi staðist ákvæði 14. gr. stjórnarskrár, þar sem kveðið er á um að ráðherra skuli bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Enginn vafi er á að skipun dómara fellur þar undir. Sá sem ber ábyrgðina verður auðvitað einnig að hafa skipunarvaldið. Svo er ekki í reynd eftir að þessi lagabreyting var gerð.


Það kemur endurtekið í ljós að dómaraelítan er ekki að raða mönnum upp eftir hæfni. Það er einfaldlega verið að velja þá sem þetta fólk vill helst fá í hópinn. Þá eru alls konar kunningjatengsl og -gæska áhrifamesti þátturinn.


Það er kominn tími til að binda endi á þessa vitleysu. Sjálfsagt er engin aðferð fullkomin, en sú er skást sem felur nefnd sérfróðra lögfræðinga að segja til um hvort umsækjendur uppfylli kröfur um hæfni án þess að raða þeim í forgangsröð og síðan ákveði ráðherra hvern skipa skuli. Sá ráðherra sem sannur verður að því að misfara með þetta skipunarvald verður þá að bera ábyrgð á því á þann hátt sem hið lýðræðislega stjórnkerfi okkar ráðgerir.

__________

Þankinn að framan gefur tilefni til að nefna þá undarlegu viðleitni margra að telja verst af öllu að kjörnir stjórnmálamenn skuli taka ákvarðanir um málefni ríkisins. Þá sé betra að umboðslausir „sérfræðingar“ ráði. Eins og þeir séu ólíklegri til að láta geðþótta og kunningjagæsku ráða gjörðum sínum heldur en stjórnmálamenn? Auðvitað ekki. Reynslan sýnir að þeir eru, ef eitthvað er, mun verri en stjórnmálamennirnir. Þessir „fagmenn“ bera hins vegar, eins og áður sagði, enga ábyrgð gagnvart almenningi á ákvörðunum sínum. Stjórnkerfi okkar byggist á því að við kjósum okkur fulltrúa til að taka svona ákvarðanir. Þeir þurfa svo að standa ábyrgir gjörða sinna gagnvart almenningi í almennum kosningum. Við skulum reyna að halda okkur við þetta fyrirkomulag.

__________


Hinn 18. desember birti ég í Morgunblaðinu spá um hver myndi hljóta dómarambættið við Hæstarétt. Spáin gekk eftir.


Hvað sem því líður sé ég ástæðu til að óska nýskipuðum hæstaréttardómara til hamingju. Ég þykist viss um að hér fer heiðarlegur og vandaður lögfræðingur sem vill fyrst og fremst sinna hinu ábyrgðarmikla embætti af heilindum og samviskusemi. Ég óska henni velfarnaðar í starfinu.

__________


Það er svolítið skondið að sjá Benedikt Bogason, sýslumann dómstóla og hæstaréttardómara, vilja byggja ósk sína á áfrýjun sýknudómsins yfir mér til Hæstaréttar, þar sem hann starfar sjálfur, á þeirri forsendu að ég hafi talað við dómstjóra Landsréttar áður en hann tók ákvörðun um skipun í dóminn. Forsendan er röng eins og ég hef fjallað um í grein í Morgunblaðinu. En Benedikt hefur byggt málflutning sinn um þetta á því að dómari og lögmaður megi ekki hafa neitt saman að sælda meðan á málsmeðferð stendur nema lögmaður gagnaðilans sé viðstaddur.


Svo birtist á Þorláksmessu grein eftir lögmanninn Vilhjálm um samtal mitt við dómstjórann. Hann skiptir nú um hest í miðri á. Hann er sem sagt búinn að sjá að fyrri fullyrðing hans um að ég hafi talað við dómstjórann, áður en dómarar voru settir í málið, er röng. Tveir af upphaflegum dómurum hurfu úr málinu vegna dóms MDE í mars á þessu ári. Þá var málinu frestað ótiltekið en síðar voru skipaðir tveir nýir í stað þeirra. Og nú segir Vilhjálmur að samtal mitt við dómstjórann hafi farið fram áður en það gerðist! Heldur hann að ég hafi í febrúar verið að tala við dómstjórann um skipan dómara í síðara skiptið? Hann fer úr einu vígi í annað. Kannski ætti lögmaðurinn að rannsaka feril umbjóðanda síns, hæstaréttardómarans Benedikts, í einkasamtölum við lögmenn málsaðila eftir að mál hefur verið flutt en er ódæmt.


Það nefnilega rifjast upp tilvik sem upplýst var í fjölmiðlum meðan málið gegn Baldri Guðlaugssyni var til meðferðar í Hæstarétti snemma árs 2012 (dómur gekk 19. febrúar það ár). Þá birtust í fjölmiðlum fréttir um að þeir hefðu farið saman á bíó, einn dómaranna í málinu og verjandi ákærða. Þetta voru Benedikt Bogason og Karl Axelsson. Þessu má slá upp á síðunni jonas.is í færslu frá 9. febrúar 2012. Þeir félagarnir sáu myndina Contraband. Ég hef það fyrir satt, að Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari, sem sótti málið gegn Baldri, hafi ekki setið á milli þeirra á bíóhúsinu. Vonandi hafa þeir skemmt sér vel saman. Þar sem ég heiti Jón tel ég víst að Karl hafi verið séra Jón við þetta tækifæri og Benedikt þá kannski guðfaðir hans. Kannski kom dómsmorðið yfir Baldri undir í bíóhúsinu?


Gleðilega hátíð.