top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Þá var ég ungur

Er ekki ráð að mannfólkið beini stundum huganum að raunverulegum gildum í lífinu, fremur en að vera upptekið af þrasi daganna sem oftar en ekki snýst um hégóma og tildur en ekki það sem skiptir mestu máli þegar allt kemur til alls?


Móðir mín hefði orðið 101 árs í dag 3. júní. Svo vill til að faðir minn andaðist á þessum degi á árinu 1979. Undarleg tilviljun, sem hefur leitt til þess að dagurinn hefur sérstakt sæti í huga mínum.

 

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að traustasta samband í mannheimi, sem sjaldan brestur, sé samband móður og barns. Þegar ég og faðir minn sátum á kenderíi saman fyrir mörgum áratugum fórum við gjarnan með ljóð. Ljóðabókin Illgresi eftir Örn Arnarson var í uppáhaldi hjá okkur. Þar er margar ljóðaperlur að finna. Ein þeirra „Þá var ég ungur“ var óður skáldsins til móður sinnar. Ég held við höfum verið sammála um að fegurra ljóð hefði ekki verið samið á Íslandi. Hvað finnst þér lesandi góður?

Skyggnumst aðeins um sviðið.

 

Hinn 12. desember 1884 ól Ingveldur Sigurðardóttir, þá 34 ára, son. Þetta gerðist á bænum Kverkártungu á Langanesströnd. Drengurinn var sjöunda barn hennar og eiginmannsins Stefáns Árnasonar. Hjónin bjuggu við lítil efni. Á harðindaárunum eftir 1880 svarf að þeim og þurftu þau snemma árs 1887 að bregða búi sakir fátæktar. Þau réðust sem vinnuhjú að Miðfirði. Eldri börnin urðu þau að láta frá sér en héldu drengnum. Hann hét Magnús. Stefán drukknaði vorið 1887 í Miðfjarðará þegar Magnús litli var tveggja ára gamall. Eftir það var hann í umsjá móður sinnar, sem varð nokkrum árum síðar bústýra á Þorvaldsstöðum í Miðfirði. Drengurinn þótti pasturslítill og var talinn latur til vinnu. Eina skjólið hans var móðirin sem unni honum og annaðist um hann í hörðum heiminum. Var hann hjá henni allt til þess að hann hélt til Reykjavíkur til náms um tvítugt.

 

Ingveldur andaðist vorið 1925. Líklega hefur henni þá ekki hugkvæmst að hún ætti eftir að lifa um ókomna tíð í hjarta þjóðarinnar sem táknmynd þess bands milli einstaklinga sem ekkert fær grandað, og verða þar í reynd ódauðleg.

Magnús sonur hennar fékkst við kveðskap og kom yfirlætislaus ljóðabók hans Illgresi fyrst út á árinu 1924. Hann orti undir skáldanafninu Örn Arnarson. Það ódauðlega ljóð sem hann orti til móður sinnar varð ekki til fyrr en degi var tekið að halla í lífi hans sjálfs, en Magnús andaðist 1942. Það ár kom út ný útgáfa af Illgresi og var þar fyrst birt ljóðið „Þá var ég ungur“.

 

Þetta ljóð er snilldarverk. Efni þess þarf ekki að lýsa. Það talar fyrir sig sjálft.

 

Hreppsómaga-hnokki

hírðist inni á palli,

ljós á húð og hár.

Steig hjá lágum stokki

stuttur brókarlalli,

var svo vinafár.

Líf hans var til fárra fiska metið.

Furðanlegt, hvað strákurinn gat étið.

Þú varst líknin, móðir mín,

og mildin þín

studdi mig fyrsta fetið.

 

Mér varð margt að tárum,

margt þó vekti kæti

og hopp á hæli og tám.

-Þá var ég ungur að árum.-

„En þau bölvuð læti“,

rumdi ellin rám.

Það var eins og enginn trúa vildi,

að annað mat í barnsins heimi gildi.

Flúði ég til þín, móðir mín,

því mildin þín

grát og gleði skildi.

 

Lonta í lækjar hyli,

lóan úti í mónum,

grasið grænt um svörð,

fiskifluga á þili,

fuglarnir á sjónum,

himinn, haf og jörð –

öll sú dásemd augu barnsins seiddi.

Ótal getum fávís hugur leiddi.

Spurði ég þig móðir mín,

og mildin þín,

allar gátur greiddi.

 

Út við ystu sundin

-ást til hafsins felldi-

undi lengstum einn,

leik og leiðslu bundinn.

Lúinn heim að kveldi

labbar lítill sveinn.

Það var svo ljúft, því lýsir engin tunga,

af litlum herðum tókstu dagsins þunga.

Hvarf ég til þín móðir mín,

og mildin þín

svæfði soninn unga.

 

Verki skyldu valda

veikar barnahendur.

Annir kölluðu að.

Hugurinn kaus að halda

heim á draumalendur,

gleymdi stund og stað.

„Nóg er letin, áhuginn er enginn“.

Ungir og gamlir tóku í sama strenginn,

allir nema móðir mín,

því mildin þín

þekkti dreymna drenginn.

 

Heyrði ég í hljóði

hljóma í svefni og vöku

eitthvert undralag.

Leitaði að ljóði,

lærði að smíða stöku

og kveða kíminn brag.

Ekki jók það álit mitt né hróður.

Engum þótti kveðskapurinn góður.

Þú varst skjólið, móðir mín,

því mildin þín

vermdi þann veika gróður.

 

Lífsins kynngi kallar.

Kolbítarnir rísa

upp úr öskustó.

Opnast gáttir allar,

óskastjörnur lýsa

leið um lönd og sjó.

Suma skorti verjur og vopn að hæfi,

þótt veganestið móðurhjartað gæfi.

Hvarf ég frá þér móðir mín,

en mildin þín

fylgdi mér alla ævi.

 

Nú er ég aldinn að árum.

Um sig meinin grafa.

Senn er sólarlag.

Svíður í gömlum sárum.

Samt er gaman að hafa

lifað svo langan dag.

Er syrtir af nótt, til sængur er mál að ganga,

-sæt mun hvíldin eftir vegferð stranga-

þá vildi ég móðir mín,

að mildin þín

svæfði mig svefninum langa.

 

Magnús Stefánsson hlaut ekki mikinn veraldlegan frama meðan hann lifði. Nafn hans mun hins vegar lifa með ljóðum hans um ókomna tíð. Og Ingveldur Sigurðardóttir mun lifa sem táknmynd þeirra tengsla mannlífsins sem aldrei bregðast.

 

Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

Comments


bottom of page