• Jón Steinar Gunnlaugsson

Útfarir

Á Íslandi ríkir sá siður við útfarir að prestur er fenginn til að flytja minningarorð um hinn látna. Gerist þetta með þeim hætti að presturinn hittir nánustu ástvini og fær hjá þeim upplýsingar um æviferil viðkomandi manns og það sem verðugt er talið að taka með í minningarorðin. Prestar sinna þessu hlutverki oftast af kostgæfni og flytja hugþekka lýsingu á hinum látna við athöfnina. Lýsingin nær því hins vegar sjaldan að verða persónuleg. Þetta er meira eins og greinargerð í máli þar sem gera skal upp mannkosti hins látna.

Hvers vegna gerum við þetta svona? Af hverju fáum við ekki einhvern sem þekkti hinn látna persónulega til að flytja um hann minningarorðin, jafnvel fleiri en einn hverju sinni. Þetta geta verið vinir, starfsbræður eða náin ættmenni hins látna.

Við minnumst þeirra sem andast með ritun minningargreina í blöð. Sá siður er ágætur og hefur þýðingu við að varðveita minningarnar á sinn hátt. Þetta hefur hins vegar ekki bein áhrif á helgiathöfnina við útförina.

Ég hef séð upptökur af útförum í öðrum löndum þar sem sá háttur er hafður á sem hér er nefndur. Svona ræðuflutningur getur oft verið hjártnæmur og eftirminnilegur. Fræg dæmi eru um ræðu sem stórleikarinn Kevin Costner flutti yfir æskuvinkonu sinni Whitney Houston eða ræðu sem George W. Bush yngri flutti yfir föður sínum George H. W. Bush, en báðir þessir menn höfðu gegnt embætti forseta Bandaríkjanna. Eða ræður sem fluttar voru við útför Muhammads Ali, þar sem m.a. vinir hans Billy Crystal og Bill Clinton fluttu fallegar ræður.

Það skiptir í raun engu máli hversu frægur svona ræðumaður er og þá ekki heldur hinn látni. Aðalatriðið er að sá sem talar hafi þekkt hinn látna persónulega, þótt eitthvað til hans koma og þótt vænt um hann. Svona ræðuflutningur verður oftast miklu eftirminnilegri en greinargerðir prestanna geta orðið.

Verði svona hættir teknir upp hér yrði auðvitað ekki nauðsynlegt að haga öllum útförum svona. Ef aðstandendum líkar gamla aðferðin betur geta þeir auðvitað viðhaft hana frekar.

Prestar sem stýra útförum ættu að hugleiða hvort ekki sé orðið tímabært að breyta fyrirkomulagi þeirra á þennan veg. Eins ættu aðstandendur að huga að þessu sjálfir, enda verður ekki séð að neitt mæli gegn því að haga útför ástvinar á þann hátt sem hér er nefndur.

© 2018 JSG lögmenn, Skólavörðustíg 12, 101 Reykjavík og Kaupvangi 6, 700 Egilsstöðum. Netfang: upplysingar@jsg.is. Sími: 5301230.

  • s-facebook
  • s-linkedin