top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Ég er ekki að grínast


Eins og ég hef skrifað um áður, komu í nóvember 2016 opinberlega fram upplýsingar um að nokkrir dómarar Hæstaréttar hefðu átt umtalsverðar hlutafjáreignir í íslensku bönkunum í hruninu svonefnda. Höfðu þessir dómarar þá orðið fyrir umtalsverðu fjártjóni. Allt að einu höfðu þeir setið í dómi gegn bankamönnum sem voru sakaðir og dæmdir fyrir að hafa valdið hruni bankanna og þar með tjóni dómaranna. Fengu bankamennirnir þunga refsidóma fyrir þessar sakir. Við meðferð málanna vissi enginn um þessa hagsmuni dómaranna. Við blasti að þeir höfðu af þessum sökum verið vanhæfir til setu í dómi yfir þessum sakborningum.


Svo furðulegt sem það má teljast töldu einhverjir að þetta hefði ekki valdið vanhæfi dómaranna í sakmálunum. Meðal þeirra var þáverandi formaður dómarafélagsins. Kom hann fram í fjölmiðlum til að verja dómarana og mótmælti því harðlega að þeir hefðu af þessum sökum verið vanhæfir til meðferðar dómsmálanna yfir bankamönnunum. Hann hét og heitir ennþá Skúli Magnússon. Situr hann nú í embætti umboðsmanns Alþingis og skilaði nýverið áliti um að fjármálaráðherra hefði verið vanhæfur til að skrifa uppá sölu ríkisbanka sem bankasýslan hafði samið um við kaupendur hans, þ.m.t. við félag sem faðir ráðherrans hafði átt hlut í. Aðild ráðherrans að þessum samningum var einungis formlegs eðlis og hafði hann ekkert haft með þessa sölu að gera.


Allir ættu að sjá að þessar sakir ráðherrans voru hreinir smámunir við hliðina á hæfi dómaranna í málunum á hendur bankamönnunum. Samt skrifaði umboðsmaðurinn núna álit þar sem hann komst að þeirri niðurstöðu að ráðherrann hefði verið vanhæfur við uppáskrift á samninginn um sölu bankans. Var umboðsmaðurinn greinilega búinn að skipta um skoðun á reglum um vanhæfi og hafði þar snúist um heilan hring.


Ég birti fyrir nokkrum dögum á fasbókarsíðu minni slóð að Kastljósþætti frá 7. desember 2016, þar sem þáverandi formaðurinn hafði af ákafa varið dómarana gegn ásökun um að hafa verið vanhæfir við meðferð sakamálanna sem þá voru til umræðu. Hér er þátturinn.


Og ég er ekki að grínast.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

bottom of page