• Jón Steinar Gunnlaugsson

Áminning felld úr gildi


Hinn 5. apríl 2019 gekk í Landsrétti dómur í máli sem Jón Steinar Gunnlaugsson hafði höfðað gegn Lögmannafélagi Íslands. Gerði hann þar kröfu um ógildingu áminningar sem úrskurðarnefnd félagsins hafði veitt honum 26. maí 2017. Tilefnið voru orðaskipti hans við dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur í tölvupóstum eftir að dómstjórinn hafði synjað erindi frá Jóni með beiðni um flýtimeðferð á máli sem hann fór með. Jón hafði í bréfi til dómstjórans tekið fram að hann vildi spara honum erfiði við meðferð málsins með því að senda honum ekki öll skjöl þess sem voru mikil að vöxtum. Hann sendi hins vegar skjalalistann og tók fram að dómstjórinn fengi þau skjöl send sem hann ákvæði sjálfur að hann vildi skoða. Viðbrögð hans voru að synja beiðninni á þeirri forsendu að skjöl hefðu ekki fylgt!


Dómstjórinn sendi formanni LMFÍ útskrift af þessum samskiptum. Stjórn LMFÍ ákvað þá að senda kæru á hendur Jóni til úrskurðarnefndarinnar, sem að mati Jóns hafði ekki vald til að taka málið til meðferðar. Samt veitti hún Jóni áminninguna sem að framan er getið.


Haustið 2017 höfðaði Jón málið á hendur LMFÍ sem dómur Landsréttar gekk í 5. apríl. Er skemmst frá því að segja að fallist var á kröfur Jóns og félagið dæmt til að greiða málskostnað hans á báðum dómstigum.


Sagt hefur verið að lögmaður sem flytur mál sitt sjálfur sé með „fool for a client“. Jón fékk því Björgvin Þorsteinsson lögmann til að annast um málssóknina með þeirri niðurstöðu sem að framan greinir.

© 2018 JSG lögmenn, Skólavörðustíg 12, 101 Reykjavík og Kaupvangi 6, 700 Egilsstöðum. Netfang: upplysingar@jsg.is. Sími: 5301230.

  • s-facebook
  • s-linkedin